Málsóknarfélagi hluthafa í Landsbankanum, sem höfðaði mál gegn Björgólfi Thor Björgólfssyni, hefur verið skipt upp í þrjú félög eftir að fyrri málsókn félagsins var vísað frá. Eru félögin nú þrjú talsins, en þeir sem standa á bak við félagið eru enn þeir sömu og létu höfða fyrra málið, eða 300 manns.
Jóhannes Bjarni Björnsson, lögmaður félagsins, segir að þar sem Hæstiréttur hafi í dómi sínum í fyrra, þegar málinu var vísað frá, komist að þeirri niðurstöðu að staða hluthafa hafi ekki verið nógu einsleit til að vera í einu máli hafi eigendahópnum verið skipt niður eftir því hvenær hlutabréf í bankanum voru keypt og tvö ný félög stofnuð.
Segir hann að nú sé því reynt aftur á málsóknina og athugað hvort félögin muni með þessari breytingu uppfylla þau skilyrði sem séu til staðar þannig að hluthafar geti rekið málið saman.
Málin þrjú eru á dagskrá héraðsdóms í dag, en þá fer fram fyrirtaka um frávísun málsins. Segir Jóhannes að búast megi við úrskurði héraðsdóms á næstu vikum. Málin voru upphaflega þingfest í desember á síðasta ári.