„Krít hljómar spennandi og nú þurfum við að finna góða tímasetningu fyrir ferðalagið svo öllum í fjölskyldunni henti,“ segir Þorkell Þórðarson í Borgarnesi.
Nafn hans kom upp úr pottinum þegar dregið var í áskrifendahappdrætti Morgunblaðsins nú í vikunni, en vinningurinn var lúxusferð með ferðaskrifstofunni Vita til Krítar fyrir tíu manns.
Þau Þorkell og Guðrún Húbertsdóttir, eiginkona hans, komu til Reykjavíkur í gær þar sem Haraldur Johannessen, ritstjóri Morgunblaðsins, afhenti þeim vinninginn góða. Þorkell starfar sem vörubílstjóri en heldur jafnframt sauðfé í fjárhúsum skammt frá Borgarnesi.
„Núna er annatími og maður er bundinn yfir sauðburðinum öllum stundum. Það fór því eiginlega inn um annað eyrað og út um hitt þegar hringt var í mig frá Mogganum og sagt að ég hefði unnið í happdrættinu. Þegar ég svo kom heim og sá auglýsingu um þennan leik kveikti ég á perunni,“ segir Þorkell.
Hann hefur verið áskrifandi að Morgunblaðinu í áraraðir og segir það vera ómissandi. „Ég les allar helstu fréttir, aðsenda pistla og minningargreinarnar og annað eftir atvikum,“ segir Þorkell. Undir þetta tekur Guðrún, sem lætur sér þó duga að lesa blaðið á netinu. Og bæði eru þau full tilhlökkunar fyrir Krítarferðinni.
„Það væri alveg frábært ef við gætum öll farið; við hjónakornin og dætur okkar þrjár með sínum fjölskyldum. Vonandi gengur þetta upp,“ segir Guðrún.
Af Þorkeli er það svo að segja að væntanleg ferð til Krítar verður fyrsta utanlandsreisa hans í lífinu. „Þetta hefur nú bara atvikast svona, útlönd hafa aldrei komist á dagskrá. En það er kominn tími til að bæta úr því hjá 56 ára gömlum manni,“ segir þessi ánægði áskrifandi Morgunblaðsins í Borgarnesi. sbs@mbl.is