Harmar vinnubrögð Vegagerðarinnar

Skútustaðir séð norður yfir Syðriflóa í Mývatni.
Skútustaðir séð norður yfir Syðriflóa í Mývatni. Ljósmynd/Mats.is

Sveitarstjórn Skútustaðarhrepps hefur hafnað erindi um að óska þess við Vegagerðina að hámarkshraði á vegarkafla frá Skútustöðum að Vogum verði 90 km/klst. en ekki 70 km/klst. 

Undirskriftalisti frá sextán íbúum í Garði, á Grænavatni og Sjónarhóli í Mývatnssveit var lagður fram á sveitarstjórnarfundi í gær. Þar var þess óskað að beiðni um lækkun hámarkshraða úr 90 í 70 km/klst. á vegarkaflanum verði afturkölluð.

Í fundargerð kemur fram að sveitarstjórnin hafi reglulega fundað með fulltrúum Vegagerðarinnar, meðal annars vegna umferðaröryggis.

„Í því samhengi hefur þess verið óskað að útskotum á umræddum vegarkafla yrði fjölgað til að auka umferðaröryggi í ljósi mikillar fjölgunar ferðamanna en því hefur Vegagerðin hafnað,“ segir í fundargerðinni. Vísað er í fund sveitarstjórnar með Vegagerðinni frá síðasta sumri þar sem eina úrræðið til aukins umferðaröryggis er talið lækkun á hámarkshraða. Óskað var eftir því að sú lækkun yrði hluta úr ári en ekki var hægt að verða við því.

Börn hjóla eftir veginum í Mývatnssveit.
Börn hjóla eftir veginum í Mývatnssveit. mbl.is/Golli

Hefði átt að kynna íbúum formlega

„Sveitarstjórn harmar hvernig Vegagerðin stóð að innleiðingu breytingar á hámarkshraða, sem eðlilegt hefði verið að kynna íbúum formlega. Rétt er að fram komi að til að auka umferðaröryggi gangandi og hjólandi vegfarenda hefur sveitarstjórn ítrekað sótt um í framkvæmdasjóð ferðamannastaða um gerð göngu- og hjólreiðastígs umhverfis Mývatn en án árangurs fram til þessa.“

Sveitarstjórnin samþykkti á fundinum í gær að taka málið varðandi hámarkshraðann aftur upp í haust í samráði við íbúa, þegar meiri reynsla er komin á núverandi hraðatakmörkun út frá öryggissjónarmiðum.

„Rétt er að taka fram að sveitarstjórn hafa jafnframt borist jákvæð viðbrögð frá íbúum með nýja hraðatakmörkun,“ segir í fundargerðinni. 

Sveitarstjórnin óskar einnig eftir því við Vegagerðina að heimildir til framúraksturs verði aðlagaðar breyttum hámarkshraða.

Ferðamenn við Mývatn.
Ferðamenn við Mývatn. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert