Skýrslutökur af ákærður í Marple-málinu svokallaða fara fram 8. og 9. júní og skýrslur verða teknar af vitnum í framhaldi af því. Gert er ráð fyrir því að málflutningur hefjist þriðjudaginn 13. júní en fyrirtaka var í málinu í morgun.
Hæstiréttur hafði áður ógilt niðurstöðu héraðsdóms í málinu og vísað því aftur í hérað.
Málið var upphaflega flutt í Héraðsdómi Reykjavíkur í september árið 2015 og féll dómur í október sama ár. Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings, var dæmdur í sex mánaða fangelsi, Magnús Guðmundsson, fyrrum bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg, var dæmdur í 18 mánaða fangelsi og Skúli Þorvaldsson fjárfestir var dæmdur í sex mánuði. Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrum fjármálastjóri bankans var sýknuð af öllum ákærum.
Ríkissaksóknari áfrýjaði málinu til Hæstaréttar, en síðar voru upptökubeiðnir gegn fjórum af þeim fimm félögum sem ákæran náði til dregnar til baka og nær málið því núna aðeins til félagsins Marple og þeirra einstaklinga sem voru ákærðir í málinu.
Símon Sigvaldason héraðsdómari er dómsformaður málsins eins og við fyrri umferð þess í héraði. Lagt var til í morgun að Jón Hreinsson yrði sérfróður meðdómari í málinu.