Steinn Jóhannsson, skólameistari við Fjölbrautaskólann í Ármúla, verður næsti konrektor Menntaskólans við Hamrahlíð. Þetta staðfestir Lárus H. Bjarnason rektor MH í samtali við mbl.is.
„Hann kemur til starfa hjá okkur í ágúst,“ segir Lárus og segir Stein vera reyndan skólamann sem gott verði að fá til liðs við skólann. Steinn var metinn hæfastur fimm umsækjenda og var boðin staðan.
Sigurborg Matthíasdóttir, fráfarandi konrektor MH, tilkynnti samstarfsfólki sínu fyrir nokkru að hún myndi láta af störfum og snúa sér alfarið að kennslu og var því staðan auglýst.
Steinn hefur verið nokkuð í fjölmiðlum undanfarið vegna mögulegrar sameiningar Fjölbrautaskólans í Ármúla og Tækniskóla Íslands.
Hann sagði í samtal við Vísi í dag að augljóst sé að verði af sameiningunni, þá verði aðeins einn skólameistari yfir sameinuðum skóla. Hann hafi því litið í kringum sig og ákveðið að sækja um í MH.