Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun beiðni velferðarráðuneytisins um að veita þremur milljónum króna til sálfræðiaðstoðar við fyrrverandi vistmenn Kópavogshælis og aðstandendur þeirra.
Áætlar velferðarráðuneytið að um 50 einstaklingar myndu þiggja slíka þjónustu og að hver einstaklingur þurfi að jafnaði fjögur viðtöl við sálfræðing með sérþekkingu á málaflokknum. Fordæmi eru fyrir sérstökum fjárveitingum sem samþykktar hafa verið af ríkisstjórn fyrir slíkum stuðningi, svo sem í tilfellum fyrrverandi vistmanna Breiðavíkurheimilisins.
Vistheimilanefnd, sem kannaði vistun barna á Kópavogshæli árin 1952-1993, skilaði dómsmálaráðherra skýrslu í febrúar sl. þar sem fram kom að þau börn sem á hælinu dvöldu hafi sætt líkamlegu og andlegu ofbeldi meðan á vistun stóð.
Innanríkisráðuneytið vinnur nú að framkvæmd sanngirnisbóta til fyrrverandi vistmanna. Ráðuneytið leitaði þó líka, í kjölfar birtingar skýrslunnar, eftir samstarfi við velferðarráðuneytið varðandi það hvort unnt væri að veita fyrrum vistmönnum Kópavogshælis og aðstandendum þeirra sálfræðiþjónustu og stuðning þeim að kostnaðarlausu vegna þeirra alvarlegu mála sem koma fram í skýrslunni.
Í upplýsingum frá velferðarráðuneytinu kemur fram að Landssamtökum Þroskahjálpar verði falin umsjón með stuðningi þessum, en hann muni felast í að veita aðilum viðeigandi upplýsingar um stuðninginn og sjá um samningsgerð við sálfræðinga sem hafa þekkingu á málaflokknum.