Ekki fóðra dýrið og borga

AFP

Bjarki Traustason, vörustjóri á rekstrarlausnasviði Advania, segir að það séu yfirgnæfandi líkur á því að einhver hér á landi muni lenda í tölvuárásinni sem hófst í gær og teygir anga sína víða um heim. Þar eru eig­end­ur sýktra tölva krafðir um fé fyr­ir að aflæsa gögn­um á þeim.

„Þetta er að nýta sér veikleika í stýrikerfum þannig að númer eitt, tvö og þrjú það er að plástra stýrikerfin hjá sér;“ segir Bjarki í samtali við mbl.is. Þegar stýrikerfi eru „plástruð“ er átt við að þau eru uppfærð til að bregðast við óvæntum göllum.

Hann bendir á að þótt þú borgir sé ekki víst að þú fáir gögnin til baka.

„Það fer ekkert á milli mála ef maður lendir í einhverju. Þá kemur upp gluggi þar sem sagt er að maður sé sýktur og þurfi að borga. Við mælum ekki með því en þá ertu að fóðra dýrið. Annað sem er líka í því; þótt þú borgir er ekkert öruggt að þú fáir gögnin. Mikið af þessum árásum er gert í flýti þannig að það er hægt að dulkóða og fá peninga en það er ekki athugað hvort þeir geti látið þig fá gögnin aftur, enda er þeim alveg sama um það.

Þrátt fyrir að ekki sé vitað um Íslendinga sem hafi lent í þessu eru líkurnar á því miklar. „Þetta er það stórt og við erum jafn nálægt óprúttnum aðilum erlendis og sá sem situr við borðinu við hliðina á þeim. Þetta er orðinn það lítill heimur að við erum ekkert eyland lengur,“ segir Bjarki en tugir þúsunda tölva eru sýktir um allan heim.

„Okei, fokk it“

Hann segir að það sé mikilvægt að taka afrit sem virki síðan á ögurstundu. „Það á að taka nóg af afritum, þannig að ef menn fá sýkingu þá segi þeir bara „okei, fokk it, ég næ bara í afritið mitt,“ að því gefnu að þeir eigi nógu nýlegt afrit. Það getur verið eins og að pissa í skóinn sinn að treysta á afritin í þessu.“

Bjarki bendir á að margir kanni ekki heilindi afrita og viti ekki hvort þau virki þegar á hólminn er komið og líkir því við það þegar dekk springur á bíl. „Þannig að á ögurstundu þegar það springur hjá þér og þú kíkir í skottið þá manstu að þú tókst dekkið úr.“

Fólk þurfi því alltaf að vera með vírusvörn og uppfærða tölvu og taka afrit. Einnig þurfi að vera með varnir sem gera ráð fyrir sýkingu; í raun þurfi fólk að vera með vaðið eins mikið fyrir neðan sig og mögulegt er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert