Vilborg Arna Gissurardóttir segir að mikil spenna hafi byggst upp í grunnbúðum Everest síðustu daga. Veður hafi gert fjallgöngufólki erfitt fyrir og enn sé ekki búið að setja upp línur sem notaðar séu til að tryggja þá sem fari upp. 30% þeirra sem ætluðu upp í ár hafi haldið heim á leið og þá hafi flensa gengið í búðunum.
Í færslu á Facebook segir Vilborg að í næstu viku sé þröngur veðurgluggi og þá sé horft til þess að línuvinnan klárist. Ástandið leiði til spennuþrungins andrúmslofts.
„Það er mikil óvissa sem skapast í svona ástandi og stressið mikið. Þráðurinn verður ansi stuttur og maður þarf að hafa sig allan við til þess að halda haus og hafa hann rétt skrúfaðan á. Þegar ég finn spennuna byggjast upp set ég tónlist í eyrun og fer í göngutúr,“ segir Vilborg í færslunni.
Hún segist vera búin að setja upp plan varðandi uppgöngu og vonast til að það gangi eftir. „Nú er bara að krossa fingur og vonast eftir góðu veðri,“ segir hún að lokum.