Hallgrímur Lárusson, framkvæmdastjóri og einn eigenda Snæland Grímsson, segir breytingar á reglum um akstur hópferðabifreiða í miðborginni fela í sér mismunun gagnvart fyrirtækjum.
„Þetta þýðir að þegar við sækjum 67 farþega út á Keflavíkurflugvöll munu þeir þurfa að arka frá Tollhúsinu í Aðalstrætið með allan sinn farangur og hafurtask og svo til baka á heimleiðinni. Það getur verið í janúar klukkan fjögur að morgni í norðangarra og hríð. Margir farþega okkar eru eldri Bandaríkjamenn. Hvernig eigum við að fara að þessu?“ spyr Hallgrímur í umfjöllun um rútubannið í Reykjavík í Morgunblaðinu í dag.
Hann segir óraunhæft að flytja farþega síðasta spölinn í leigubíl. Þeir séu jafnan með farangur og því megi miða við 2-3 farþega í leigubíl.