Starfsemin við Silfru undir smásjánni

Kafarar við Silfru á Þingvöllum.
Kafarar við Silfru á Þingvöllum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þjóðgarðurinn á Þingvöllum ætlar á næstunni að fara í verkefni ásamt eftirlitsaðilum þar sem fylgst verður mjög náið með starfsemi ferðaþjónustuaðila í kringum Silfru.

Reynt verður að finna út hvar má gera betur og hvernig er farið eftir þeim hertu reglum sem voru settar fyrr á árinu um köfun í ánni.

Einar Á. Sæmundsen, fræðslufulltrúi þjóðgarðsins á Þingvöllum, á von á því að verkefnið hefjist síðar í þessum mánuði. „Það koma fagaðilar í köfun með gátlista og fara yfir helstu atriði,“ segir hann og reiknar með því að eftirlit þeirra haldi áfram í sumar án þess að látið verði sérstaklega vita af komu þeirra fyrir fram.

Silfra heillar þrátt fyrir hætturnar.
Silfra heillar þrátt fyrir hætturnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Búa til þekkingarbrunn

„Svo verður reynslan metin í kjölfarið á því til þess að við getum búið til þekkingarbrunn, hvað þarf að skerpa og hvort menn eru að fara eftir reglunum,“ segir Einar. „Ég veit að fyrirtækin leggja allt á sig til að uppfylla þessi skilyrði. Þau taka þessu mjög alvarlega og við erum í góðu sambandi við þau.“

Leiðsögumaður fylgist grannt með köfurum í yfirborðsköfun nálægt grynningum við …
Leiðsögumaður fylgist grannt með köfurum í yfirborðsköfun nálægt grynningum við Silfru. mbl.is/Kristinn Magnússon

Engin slys orðið

Aðspurður segir hann að engin slys hafi komið upp í Silfru síðan banaslys varð þar í mars síðastliðnum.

Eftir slysið voru nýjar og hertar reglur vegna köfunar í Silfru kynntar. Færri kafarar fá núna að fara með leiðsögumanni en áður, gerð er krafa um að menn kafi í þurrbúningi, auk þess sem sýna þarf læknisvottorð vegna líkamlegs og andlegs heilbrigðis. Einnig er einungis hægt að kafa á ákveðnum tímum dagsins og sömuleiðis er gerð krafa um að fólkið sem kafar eða snorklar sé synt.  

Silfra á Þingvöllum hefur notið mikilla vinsælda meðal ferðamanna.
Silfra á Þingvöllum hefur notið mikilla vinsælda meðal ferðamanna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Afgerandi áhrif á fjölda kafara

Að sögn Einars hafa reglurnar haft þau áhrif að köfurum sem fara í djúpköfun hefur fækkað umtalsvert. Fjöldi þeirra sem fer í yfirborðsköfun hefur aftur á móti haldist svipaður.

„Það er ljóst að þessar reglur hafa haft mjög afgerandi áhrif á fjölda kafara. Einnig hafa fyrirtækin sett ítarlegri kröfur, sérstaklega varðandi heilsufar þeirra sem snorkla og kafa. Það er að skila sér og maður vonar að menn séu meðvitaðir um að þetta sé iðja sem tekur á og að menn þurfi að vera í góðu formi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert