Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk stuttu fyrir hádegi tilkynningu um erlendan einstakling sem var að fljúga dróna við Tjörnina í miðborg Reykjavíkur, en slíkt getur skapað hættu fyrir flugvélar sem koma til lendingar á Reykjavíkurflugvelli.
Þegar lögreglu bar að var maðurinn farinn af vettvangi og segir í dagbók lögreglu að ekki sé ólíklegt að einhver vegfarandi hafi bent honum á hættuna af þessu athæfi.
Samkvæmt ákvörðun Samgöngustofu um flug fjarstýrðra dróna er óheimilt að fljúga drónum í 2 kílómetra radíus frá áætlunarflugvöllum, eins og Reykjavíkurflugvelli. Hægt er að lesa reglurnar hér og sjá kort sem sýnir svæðistakmörkun á flugi dróna við Reykjavíkurflugvöll hér.