Hvorki Síminn né Vodafone, stærstu internetþjónustufyrirtækin hér á landi, hafa fengið tilkynningar um hugsanlegar tölvuárásir frá viðskiptavinum sínum vegna bylgju gagnagíslatöku (e. ransomeware) sem gengur nú yfir heiminn, en árásin hefur náð til um 200 þúsund notenda í 150 löndum.
„Við höfum ekki heyrt um tilfelli meðal viðskiptavina en nokkrir hafa hringt í þjónustuverið okkar til að forvitnast um málið,“ segir Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, í samtali við mbl.is. „Við hjá Símanum erum með öflugt öryggisteymi, sem fylgist vel með og vinnur náið með netöryggissveit yfirvalda. Það hefur kynnt sér ógnirnar, farið yfir kerfi Símans og mun halda áfram að fylgjast með atburðarásinni og bregðast við ef þarf.“
Gunnhildur hvetur fólk þó til að skoða hvernig pósta það fær og opna hvorki skjöl né síður sem það kannast ekki við. Það sé regla sem afar þarft sé að hafa í huga þegar kemur að netöryggi.
Guðfinnur Sigurvinsson, upplýsingafulltrúi Vodafone , segir tvöfalda vakt hafa verið hjá fyrirtækinu alla helgina vegna árásinnar. En ekki hefur orðið vart við neitt grunsamlegt í þeirra kerfum. Starfsmenn fyrirtækisins munu þó áfram vera á tánum frameftir vikunni.
„Það er ástæða til þess að vara fólk sérstaklega við sem er að mæta til vinnu á morgun, að fylgjast vel með öllum torkennilegum tölvupóstum og passa sig á viðhengjum sem virðast grunsamleg. Á mánudagsmorgni opnar fólk marga tölvupósta og fyrsti klukkutími vinnudagsins fer í að gera það tiltölulega hratt. Þar gæti legið veikur blettur á morgun. Það gæti verið reynt að stíla inn á það.“
Guðfinnur segir því um að gera að vel vakandi í fyrramálið og fara ekki of hratt í gegnum uppsafnaðan tölvupóst.
Allt starfsfólk Póst- og fjarskiptastofnunar er að störfum vegna árásarinnar, en í kvöldfréttum Stöðvar 2 sagði Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri stofnunarinnar, eitt tilfelli vera í skoðun hjá þeim, það væri þó enn óstaðfest að um tölvuárás væri að ræða.
Skýringar frá Póst- og fjarskiptastofnun
Stofnunin hefur nú uppfært upplýsingar á heimasíðu sinni þar sem útskýrt er nánar hvað vírusinn gerir, til hvaða fyrirbyggjandi aðgerða sé rétt að grípa og hvað eigi að gerast ef vart verði sýkingar:
Hvað er að gerast?
Tölvur eru sýktar með óværu sem dulritar gögnin á tölvunni og kemur þannig í veg fyrir að notandinn komist í gögn sín. Hætt er við að aðrar nettengdar tölvur og gögn á nettengdum staðarnetum verði einnig dulrituð.
Óværan nýtir sér þekktan veikleika í Windows-stýrikerfinu, MS17-010 sem búið er að gefa út öryggisleiðréttingu á. Samkvæmt upplýsingum frá Microsoft eru það eingöngu tölvur með eldra stýrikerfi en Windows 10 sem eru í hættu fyrir þessari árás. Netöryggissveitin CERT-ÍS mælir engu að síður með því að uppfæra reglulega öll Windows-stýrikerfi, þar með talið Windows 10.
Staðan hér á landi
Engar staðfestar tilkynningar hafa enn borist um að tölvur hérlendis hafi orðið fyrir þessari árás. Þó hafa komið fram vísbendingar um sýkingar hér hjá erlendum upplýsingaveitum, sjá t.d. https://intel.malwaretech.com/botnet/wcrypt
Fyrirbyggjandi aðgerðir:
Ef sýking finnst
Ef tölva reynist sýkt skal taka hana úr sambandi við netið strax, bæði netsnúru og WiFi. Annars er hætt við að hún sýki aðrar tölvur.
Snúa sér til kerfisstjóra, þjónustuaðila eða öryggisráðgjafa til að fá aðstoð.
Hreinsa vélina alveg og hlaða niður afritum ef þau eru til.
Almennt er ekki mælt með að lausnargjald sé greitt nema ef kannað hefur verið til fulls hvort óbætanleg gögn séu annars óendurkræf. Ef talið er rétt að greiða lausnargjaldið er mælt með að gera slíkt í samráði við þjónustuaðila eða öryggisráðgjafa.
Frekari upplýsingar um gagnatökuvírusa er að finna á www.NoMoreRansom.org
Mjög mikilvægt að tilkynna atvik
Til þess að fá mynd af því hve árásin er víðtæk hérlendis óskar Netöryggissveitin CERT-ÍS eftir því að fá til sín tilkynningar um allar sýkingar sem vart verður við. Vinsamlega sendið tilkynningar á netfangið cert@cert.is eða í faxnúmer 510-1509.
Í tilkynningunni komi fram hver varð fyrir árás, hvaða stýrikerfi er um að ræða, hvernig afleiðingarnar lýsa sér í stuttu máli og nafn, sími og tölvupóstur tengiliðar.