Reyna að para fólk vel saman

Reynt er að para fólk saman sem líklegt er að …
Reynt er að para fólk saman sem líklegt er að geti myndað tengsl. Ljósmynd/Heiðar Kristjánsson

Síðustu vikur hefur orðið töluverð aukning í hópi heimsóknarvina hjá Rauða krossinum og einnig þeirra sem sækjast eftir heimsóknum. Þetta segir Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossins. Aukninguna virðist mega rekja til umfjöllunar um heimsóknarvini í fréttum Stöðvar 2 í kjölfar viðtals við konu sem ákvað að auglýsa eftir vinum í gegnum Facebook-síðuna Góða systir. Yfir 700 manns nýta sér nú heimsóknarvini Rauða krossins.

„Þetta er allur skalinn af fólki. Það er töluvert af eldra fólki sem fær reglulegar heimsóknir en margt yngra fólk líka. Víða um land erum við líka með hópa sem hittast, sem ætlaðir eru fólki sem langar í félagsskap. Við höfum fundið fyrir aukningu í heimsóknarvinum en líka í ásókn í hópana. Það er mjög jákvætt.“

Brynhildur skrifaði einmitt sjálf við færslu konunnar í Góða systir hópnum og benti fólki á sjálfboðaliðaverkefnið heimsóknarvini. „Það getur verið jákvætt fyrir fólk að fá félagsskap í gegnum svona formlegt ferli. Við reynum til dæmis að para saman fólk sem við höldum að muni ná vel saman. Í fyrsta skipti fer líka starfsmaður frá okkur með í heimsóknina til að kanna hvort allt sé í lagi, en eftir það er takinu sleppt og fólk gerir það sem það vill.“

Aðspurð hvort hún finni fyrir því að fólki þyki það óþægilegt skref að stíga, að óska eftir heimsóknarvini, segir hún erfitt að svara því. „Beiðnin kemur oft í gegnum félagsþjónustuna eða heilsugæsluna. Þetta kemur ekki alltaf frá fólkinu sjálfu. En fólki ætti alls ekki að þykja þetta óþægilegt. Maður veit nefnilega ekki hvort þetta er betra fyrir þann sem sækist eftir því að fá einhvern í heimsókn, eða heimsóknarvininn sem skráir sig sem sjálfboðaliða. Þetta virkar 100 prósent í báðar áttir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert