Vísbendingar borist en ekkert staðfest

AFP

Póst- og fjarskiptastofnun hafa enn ekki borist neinar staðfestar tilkynningar um sýktar tölvur hér á landi vegna tölvuárásarinnar sem hófst á föstudaginn. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá stofnuninni en hundruð þúsunda tölva um allan heima hafa orðið fyrir barðinu á árásinni. Fundað var hjá Póst- og fjarskiptastofnun um stöðuna í morgun. 

„Tvær vísbendingar hafa þó borist en ekki er staðfest að um sýkingu af völdum WannaCry-óværunnar sé að ræða. Einnig hefur netöryggissveitin CERT-ÍS fengið vísbendingar í gagnastraumum um fimm IP-tölur hérlendis sem gætu hafa sýkst. Ábendingum hefur þegar verið komið á framfæri við ábyrgðaraðila um að hreinsa þær vélar,“ segir ennfremur.

Lögð er áhersla á að afar mikilvægt sé að senda tilkynningu til netöryggissveitarinnar CERT-ÍS ef grunur leikur á að tölva sé sýkt af óværunni. Ítrekað er að allar upplýsingar um tilkynnendur séu höndlaðar sem trúnaðarmál og ekki gefnar upp nema að fengnu samþykki þeirra.

Tilkynningar sendist á cert@cert.is eða á fax nr. 510-1509. Þegar atvik eru tilkynnt er æskilegt að veittar séu sem ítarlegastar upplýsingar um eftirfarandi:

  • Tengiliðaupplýsingar - í það minnsta tölvupóstfang
  • Sem nákvæmust lýsing á því sem gerðist
  • Skrár með spillikóða eða lista af skrám sem vírusvörn finnur
  • Skjáskot af kúgunarbréfum með upplýsingum s.s. bitcoin-greiðsluleiðbeiningum og sérstaklega bitcoin-reikningi
  • Skjáskot af skráalista í Windows Explorer með skráaendingum sem óværan hefur breytt

„Rétt er að vera áfram á varðbergi gagnvart WannaCry-óværunni sem og öðrum sem eru einnig í umferð. Sjá upplýsingar og leiðbeiningar í tilkynningu á vef PFS í gær. Einnig er rétt að benda á að fleiri vírusar en WannaCry-óværan eru í umferð svo allir tölvu- og netnotendur ættu að vera á varðbergi og uppfæra stýrikerfi sín og vírusvarnir reglulega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert