Fjallagarpurinn John Snorri Sigurjónsson komst fyrstur Íslendinga á topp Lhotse fjalls kl. 10.20 í dag. Fjallið er það fjórða hæsta í heimi og er 8.516 metra hátt. Hann er nú á leiðinni niður fjallið og er væntanlegur í grunnbúðir þrjú eftir nokkra klukkutíma.
Að ná á topp Lhotse er liður í undirbúningi Johns fyrir fjallið K2 sem hann stefnir á að klífa í sumar. K2 er erfiðasta fjall heims. Þangað er stefnan tekin 9. júní næstkomandi.
„Þetta er sannarlega mikið fagnaðarefni fyrir Íslendinga,“ segir Kári G. Schram sem vinnur að alþjóðlegri heimildarmynd, Ferð til himna, um afrek Johns Snorra. Hann er sjálfur nýkominn heim en hann dvaldi í um 10 daga í grunnbúðunum með John. „Þetta var æfingaferð fyrir okkur báða. Ég þurfti að undirbúa öll tæki og tól og finna ýmsar lausnir,“ segir Kári.
Með John í för var írskur fjallagarpur sem náði einnig upp á topp á sama tíma og var jafnframt fyrsti Írinn til að klífa Lhotse.
John Snorri og fylgdarlið hans þurfti að bíða í nokkurn tíma í grunnbúðum eftir tækifærinu að komast á toppinn, tækifærið kom í gær.
„Sökum veðurs var ákveðið að sleppa búðum númer fjögur, sem eru þær sömu og Everest-farar stoppa í áður en þeir halda á topp Everest. Tveir sherpar voru með í för og hjálpaði John Snorri og írskur göngufélagi hans við að leggja línurnar svo þeir kæmust á toppinn. Gangan varð hægari fyrir vikið en eftir 17 klukkustundir náðu þeir ætlunarverki sínu og stóðu á toppi Lhotse.“ Þetta kemur fram í Facebook-færslu á Lífsspor K2.
Um tæplega 400 manns hafa klifið Lhotse sem er skammt frá Evrest en til að mynda hafa um 3.500 farið á topp Evrest. Að sögn Kára er Lhotse tæknilegra og erfiðara að klífa það en Evrest.
Nú tekur við um 2-3 vikna pása hjá John áður en ferðinni er heitið á vit nýrra ævintýra að komast á topp K2 sem er talið eitt erfiðasta fjall heims.
Hægt er að fylgjast með ferðum John Snorra á www.lifsspor.is og á facebooksíðunni Lífsspor K 2.