„Það eru stórkostleg tíðindi að Chelsea Manning verði frjáls kona í dag og mikil ástæða til að fagna því,” segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Eins og áður kom fram hefur bandaríski hermaðurinn Chelsea Manning verið látin laus úr fangelsi í dag eftir að hafa setið í sjö ár í fangelsi fyrir að hafa lekið hundruðum þúsunda skjala í eigu bandarískra stjórnvalda til uppljóstrunarsíðunnar Wikileaks árið 2010.
„Allur heimurinn stendur í þakkarskuld við Manning, ekki síst við Íslendingar. Það kom fram í dómnum yfir henni að hún hefði lagt áherslu á að mikilvæg gögn sem tengdust Icesave yrðu sett fyrst út í þessum mikla gagnaleka, því henni blöskraði hvernig stórveldi níddust á örþjóð í krafti stærðar sinna,” segir Birgitta.
Af því tilefni að Manning losnar úr fangelsi í dag bjóða Píratar til fagnaðar í kvöld þar sem allir eru velkomnir, óháð stjórnmálaskoðunum.
Með viðburðinum vilja Píratar heiðra Manning, fagna þessum tímamótum og senda þau skilaboð að við sýnum uppljóstrurum samstöðu þegar þeir koma með mikilvægar opinberanir. Einnig tilnefnir þingflokkur Chelsea Manning og Edward Snowden til friðarverðlauna Nóbels.
Facebook-síða viðburðarins Fögnum frelsi Chelsea Manning, sem fer fram í höfuðstöðvum Pírata við Síðumúla og hefst klukkan 20 í kvöld.