Vilborg Arna Gissurardóttir er komin upp í búðir tvö sem nefnast C2 og eru í 6.400 metra hæð á Everest. Þar er tekinn hvíldardagur og stefnt er að því að komast upp í búðir þrjú á morgun. Það er enn óvissa um framhaldið en samkvæmt langtímaspá er möguleiki á að hægt verði að komast á toppinn í kringum 21. maí.
Alls eru fernar búðir á leiðinni upp áður en klifrararnir komast alla leið upp á topp Everest. Vilborg Arna á því eftir að komast upp í tvennar búðir til viðbótar áður en reynt verður við toppinn.
Gangan upp í búðir tvö gekk mjög vel, að sögn Tomasz Þórs Verusonar, kærasta Vilborgar Örnu. „Hún lætur vel af sér. Þau eru að hvíla sig núna og skoða veðurspána,“ segir Tomasz. Veðrið á Everest hefur verið óvenjuslæmt undanfarið. Hópur sem ætlaði að komast upp á toppinn í nótt þurfti að snúa við vegna kulda því vindkælingin var gífurlega mikil.
Fyrir nokkrum dögum opnaðist veðurgluggi í kringum 21. maí. Áður en spár gerðu ráð fyrir þessum veðurglugga höfðu um 30% af klifrurum á fjallinu sem stefndu á toppinn farið aftur heim.
Tomasz áætlar að um 200 til 240 klifrarar séu á fjallinu núna, nokkrir hópar eru fyrir ofan eða neðan Vilborgu.
Ekkert netsamband næst við Vilborgu Örnu í þessari hæð. Tomasz nær að hafa samskipti við hana með talstöðvarsambandi.