„Ætlar einhver að axla ábyrgð?“

Jón Ásgeir Jóhannesson.
Jón Ásgeir Jóhannesson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ég velti því fyrir mér hvernig stjórnvöld ætla að bregðast við þessum dómi. Ætlar einhver að axla ábyrgð á því að mannréttindi einstaklinga á Íslandi hafa verið fótum troðin í réttarsölum undanfarin ár?“ spyr Jón Ásgeir Jóhannesson kaupsýslumaður í yfirlýsingu á nýstofnaðri vefsíðu sinni þar sem hann ræðir nýfallinn dóm Mannréttindadómstóls Evrópu þess efnis að íslenska ríkið hafi brotið gegn honum þegar komi að banni við endurtekinni refsimeðferð.

Frétt mbl.is: Dómurinn fordæmi fyrir framhaldið

„Munu fyrrverandi eða núverandi ráðherrar og stjórnmálamenn, héraðsdómarar eða hæstaréttardómarar, fyrr- og núverandi, sæta ábyrgð? Ef enginn ber ábyrgð á rangindunum er ég hræddur um að ekkert breytist. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem íslenska ríkið er dæmt fyrir brot á mannréttindum fólks að mati Mannréttindadómstólsins. Og ef enginn axlar ábyrgð þá verður þetta ekki í síðasta skiptið,“ segir hann enn fremur í yfirlýsingu sinni.

Frétt mbl.is: Fordæmisgefandi fyrir fjölda mála

Jón Ásgeir segist ekki hafa kynnt sér dóminn til hlítar en niðurstaðan komi sér ekki óvart enda í samræmi við fyrri dóma Mannréttindadómstólsins sem kveðnir hafi verið upp allt frá árinu 2009. Nú taki við að fara betur yfir dóminn en ákvarðanir um framhaldið hafi ekki verið teknar. Hann segir umhugsunarefni að hér á landi hafi engu verið breytt í refsimeðferð skattamála þrátt fyrir að dómstóllinn hafi tekið málið fyrir og fordæmi myndast um að íslenska kerfið stæðist ekki.

Frétt mbl.is: Íslenska ríkið braut gegn Jóni Ásgeiri

„Ríkin í kringum okkur brugðust allt öðruvísi við og reyndu að aðlaga sína framkvæmd niðurstöðum mannréttindadómstólsins. Ég hef barist gegn hinum ýmsu öngum stjórnvalda í réttarsölum landsins undanfarin fimmtán ár og haft það oftar en ekki á tilfinningunni að pottur væri brotinn í íslensku réttarkerfi. Niðurstaðan staðfestir þennan grun minn og staðfestir líka sem betur fer að íslenska réttarkerfið er ekki, eitt réttarkerfa í Evrópu, undanþegið Mannréttindasáttamála Evrópu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert