Meirihluti fjárlaganefndar Alþingis leggur til að hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu verði frestað. Í staðinn verði álagning komugjalda skoðuð.
Nefndin hvetur einnig til þess að kannaðir verði kostir þess að eignir ríkisins á Keflavíkurflugvelli verði seldar, að því er kom fram í kvöldfréttum Rúv.
Ríkisfjármálaáætlun var afgreidd úr fjárlaganefnd í dag en nefndarálitið verður birt á morgun.
Ekki eru gerðar tillögur um að heildartekjur eða útgjöld ríkissjóðs í áætluninni breytist en í athugasemdunum er lagt til að fjármunir verði færðir til, meðal annars vegna athugasemda frá öðrum þingnefndum.
Ein veigamesta breytingin snýr að ferðaþjónustunni en fjármálaráðherra hefur kynnt að virðisaukaskattur verði hækkaður úr neðra þrepi í 22,5 prósent. Það myndi þýða um 16 milljarða tekjuaukningu fyrir ríkissjóð.
Samkvæmt heimildum fréttastofu Rúv leggur meirihluti nefndarinnar til að breytingunum verði frestað og taki ekki gildi um mitt næsta ár heldur í fyrsta lagi í ársbyrjun 2019.
Í staðinn verði kannað að leggja á komugjöld. Þau skila hins vegar mun minni tekjum, hefðu til dæmis skilað þremur og hálfum milljarði í fyrra.
Nefndin vill jafnframt athuga hvort grundvöllur sé fyrir því að mannvirkin á Keflavíkurflugvelli verði seld, þar á meðal Flugstöð Leifs Eiríkssonar, til að fjármagna samgönguframkvæmdir, bætur á innanlandsflugvöllum og vegabætur.
Heimildir fréttastofu Rúv herma einnig að nefndin leggi til að stjórnvöld skipi stjórn yfir Landspítalann. Í því felist aukið eftirlit með rekstri spítalans.
Einnig herma heimildirnar að meirihlutinn leggi til að framhaldsskólar þurfi ekki að sæta tveggja prósenta aðhaldskröfu og að Háskóli Íslands njóti sömu aukningar framlaga og er á yfirstandandi ári.