Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar, segir að Kristján Þór Júlíusson menntamálaráðherra og skólameistarar FÁ og Tækniskólans hafi upplýst nefndarmenn um stöðu mála í sameiningarferli skólanna á fundi nú síðdegis.
„Þeir eru búnir að vinna góða greiningarvinnu um kosti og galla. Fundurinn var upplýsandi og gagnlegur,“ segir Áslaug í samtali við mbl.is. „Þetta er áhugaverð leið til að mæta þeim vanda sem framhaldsskólarnir standa frammi fyrir vegna fækkunar nemenda.“
Áslaug segir að skólameistararnir horfi á sameiningarhugmyndir með opnum huga. „Þeir kynntu fyrir okkur kosti og galla sameiningar.“
Eins og kom fram í morgun hefur engin ákvörðun verið tekin um sameiningu og Áslaug segir að staðan hvað það varðar sé eins. Hins vegar sé greiningarvinnu skólameistaranna lokið. „Það er því núna komið á borð ráðherra að taka ákvörðunina.“