Íbúar höfuðborgarsvæðisins hafa notið blíðviðrisins í dag og margir hafa lagt leið sína í Laugardalinn, einhverjir eflaust til að njóta dagsins í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Lögreglan segir að margir eigi þó erfitt með að leggja löglega og þar af leiðandi hafi margir verið sektaðir.
„Það er blessuð blíðan. Umferðardeild LRH er á ferðinni en í Laugardal er mikið kraðak. Nú þegar er búið að leggja gjald á nokkur ökutæki. Ekki fá sekt, leggðu í stæði t.d. við Laugardalsvöll,“ skrifar lögreglan á höfuðborgarsvæðinu í færslu sem birtist á Facebook-síðu hennar.