„Þetta sýnir bara hvað hún er öflug, gefst ekki upp og klárar það sem hún einsetur sér,“ segir Haraldur Örn Ólafsson, einnig þekktur sem Haraldur pólfari, um árangur Vilborgar Örnu Gissurardóttur, sem varð í nótt sjöundi Íslendingurinn til að komast á topp Everest. Fimmtán ár eru síðan Haraldur komst á topp Everest.
„Ég fylgdist vel með henni og við höfum verið í miklu sambandi síðustu mánuði. Við erum góðir vinir og höfum þekkst lengi og farið í margar fjallaferðir saman,“ segir Haraldur í samtali við mbl.is.
„Ég vil auðvitað bara óska henni til hamingju með þennan framúrskarandi árangur. Hún er fyrsta íslenska konan sem kemst á toppinn og við mjög erfiðar aðstæður. Hún hefur auðvitað gengið í gegnum mikla erfiðleika, þetta er þriðja skiptið sem hún reynir við toppinn en hún lenti í miklum hörmungum í fyrri tilraununum, bæði íshruni, jarðskjálftum og fleiru,“ segir Haraldur.
Haraldur náði toppi Everest að morgni 16. maí 2002. Hann segir það hafa verið ógleymanlegt að standa á toppi hæsta tinds veraldar. „Þetta eru stórkostlegar minningar sem maður á frá þessu fjalli og einn af hápunktunum í því sem maður hefur gert á fjöllum. Það er fátt sem getur toppað það að standa á hæsta tindi veraldar,“ segir Haraldur en bætir við að það sé gríðarlega erfitt verkefni að komast á toppinn sem reynir bæði á líkamlega og andlega þætti.
Maður þarf að vera vel undirbúinn en svo þurfa líka ýmsir hlutir að ganga upp sem maður hefur ekki stjórn á eins og aðstæður, snjólög og veðurfar. Svo getur maður líka bara verið óheppinn og smitast af pestum á fjallinu. Það eru því fjölmargir þættir sem þurfa að ganga upp til að fólk nái þessum áfanga.“
Aðspurður hvort hann hafi einhvern tímann hugsað sér að fara aftur upp á Everest segist Haraldur ekki útiloka það. „En eins og er myndi ég frekar velja að fara á nýja staði og upplifa eitthvað nýtt. En ég myndi aldrei útiloka það.“