Vilborg Arna Gissurardóttir komst í nótt á topp Everest-fjalls og varð þar með sjöundi Íslendingurinn sem nær þessum merka áfanga. Hún komst á tindinn um klukkan 03:15 í nótt að íslenskum tíma en gangan frá fjórðu búðum á tindinn tók ellefu klukkustundir.
„Þetta hafðist! Þau voru bara rétt í þessu að toppa,“ sagði Tómasz Þór Veruson, kærasti Vilborgar Örnu, í samtali við mbl.is. Hann er staddur á Íslandi en hefur fylgst grannt með framvindu mála í nótt.
„Henni líður mjög vel og þetta gekk alveg ótrúlega vel. Þau voru slétta ellefu tíma upp. Náðu toppnum þá korter yfir þrjú að íslenskum tíma,“ segir hann ennfremur.
Everest-fjall er hæsta fjall í heimi, 8.848 metra hátt.
Tómasz segir að það hafi verið mjög hvasst á fjallinu og töluverð umferð annarra fjallgöngumanna, en hann telur að um það bil 30 til 40 aðrir hafi verið að komast á tindinn á sama tíma. Að öðru leyti hafi allt gengið mjög vel.
Vilborg og sjerpinn Tenji gátu verið á toppi Everest í nokkrar mínútur áður en þau ákváðu að halda aftur niður, enda þurfi að taka umferðina með í reikninginn auk þess sem það sé töluvert hvasst. „Hún fékk að njóta útsýnisins og sagði að þetta væri geðveikt,“ segir Tómasz og hlær.
Það ætti að taka um sex klukkustundir fyrir Vilborgu að komast aftur niður í fjórðu búðir Everest, eða um klukkan 9 eða 10 að íslenskum tíma. Svo mun það taka um tvo daga að komast alla leið niður í grunnbúðirnar. Á meðan er hún ekki í sambandi við neinn annan en Tómasz.
Sem fyrr segir er Vilborg komin í hóp fárra Íslendinga sem hafa náð að komast á hæsta tind í heimi. Hún er jafnframt fyrsta íslenska konan sem afrekar þetta. Þetta var þriðja tilraun hennar til að sigrast á Everest.
Vilborg lagði af stað á toppinn frá fjórðu búðum fjallsins síðdegis á föstudag en varð frá að hverfa í fyrrinótt sökum veðurs. Hún lagði svo aftur af stað frá fjórðu búðunum síðdegis í gær og komst á leiðarenda klukkan 03:15, eins og fram hefur komið.
Í dag, 21. maí, eru 20 ár liðin frá því að Íslendingar stóðu fyrst á tindi Everest-fjalls. Fjallgöngukapparnir Björn Ólafsson, Einar K. Stefánsson og Hallgrímur Magnússon unnu það afrek.
Haraldur Örn Ólafsson gekk næstur Íslendinga á þetta hæsta fjall heims og stóð á tindi Everest 16. maí 2002. Tveir Íslendingar gengu á Everest vorið 2013. Ingólfur Geir Gissurarson náði tindinum 21. maí. Hann stóð þá á fimmtugu og var elsti Íslendingurinn og eini íslenski afinn sem hafði gengið á hæsta fjall heims.
Leifur Örn Svavarsson náði tindi Everest 23. maí. Hann er eini Íslendingurinn sem hefur farið norðurleiðina á Everest, en hún er tæknilega erfiðari en suðurleiðin.