„Ég hef lýst vilja mínum til þess að vinna með fólki og lægja öldur en það var greinilega enginn vilji til þess. Síðan í upphafi fundar átti að koma fram tillaga um að kjósa annan fundarstjóra en mig. Ég tel það bara ganga gegn góðum fundarsköpum. Formaður stýrir fundum stjórnar nema annað sé sérstaklega ákveðið en það er þá bara þegar verið er að fjalla um vanhæfi eða eitthvað slíkt. En það er ekkert um það að ræða í þessu tilfelli að formaður sé eitthvað vanhæfari en aðrir í stjórninni þar sem þarna eru bara einfaldlega deilur á milli aðila.“
Frétt mbl.is: Samningur ekki borinn undir stjórnina
Þetta segir Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna, í samtali við mbl.is en stjórnarfundur var boðaður klukkan 17:00 í dag sem Ólafur sleit skömmu eftir að hann hófst. „Ég setti fundinni og sleit honum og gerði stjórnarmönnum grein fyrir því að þeir sætu ekki lengur á stjórnarfundi í Neytendasamtökunum.“ Ólafur segir enn fremur að fundurinn hafi verið illa sóttur. Aðeins helmingur stjórnarmanna hafi verið mættur auk eins sem tengdist í gegnum fjarfundabúnað. Fundurinn hafi því að mati Ólafs verið „einstaklega illa til þess fallinn að útkljá einhver alvarleg mál.“
Spurður um ásakanir um slæma fjárhagsstöðu Neytendasamtakanna og að hann hafi ekki gert hana betri með því að skuldbinda samtökin og vegna launagreiðslna til hans segist Ólafur hafna því með öllu að hann hafi skaðað fjárhagsstöðu þeirra. Hann hafi ekki komið að því þegar ákveðið hafi verið að fela varaformanni Neytendasamtakanna að ganga frá ráðningarsamningi. Tekið hafi verið fram að um hefðbundinn ráðningarsamning væri að ræða. Það hafi allt verið gert án aðkomu hans þó að hann hafi ekki yfirgefið þann fund.
Spurður um framhaldið og hvort frekari fundir séu fyrirhugaðir um stöðuna segir Ólafur að engir fundir hafi verið boðaðir en ef stjórnarmaður óski eftir stjórnarfundi beri að boða til hans. Þannig hafi fundurinn í dag verið boðaður, að ósk tveggja stjórnarmanna. Komi fram ósk um annan fund muni hann verða við því. „En ég mun ekki láta fólk sem er að ásaka mig um mjög alvarlega hluti ranglega taka stjórn þessara funda af réttkjörnum formanni Neytendasamtakanna.“
Ólafur sakar stjórnarmenn um að leka upplýsingum í fjölmiðla og gagnrýnir þá fyrir að hafa farið með málið í fjölmiðla. Einnig hafi verið sendar tilkynningar í fjölmiðla þar sem rangar sakargiftir í hans garð hafi verið ítrekaðar. „Ég lít á þetta sem sakargiftir og ef það væri einhver fótur fyrir þessu hefði stjórnin átt að hringja í lögregluna en ekki fjölmiðla. Ég lít svo á að þetta fólk verði að líta í eigin barm. Þetta fólk var sjálfkjörið í stjórnina. Þing Neytendasamtakanna tók ekki afstöðu til þessa fólks þar sem það voru tólf frambjóðendur í tólf stjórnarsæti. Þannig að ef menn ætla að fara að metast um lýðræðislegt umboð þá held ég að mitt sé mun sterkara.“