„Ég ákvað að segja mig úr stjórninni að eigin frumkvæði. Ég var bara búin að fá nóg og sé ekki lausn í sjónmáli,“ segir Ása Steinunn Atladóttir í samtali við mbl.is en hún sagði í dag af sér sem varaformaður Neytendasamtakanna. Deilur hafa verið innan stjórnar samtakanna á milli Ólafs Arnarsonar formanns þeirra og annarra stjórnarmanna.
Ein af ástæðunum eru samstarfserfiðleikar við Ólaf að sögn Ásu Steinunnar. „Ég líka dróst inn í þetta á leiðinlegan hátt,“ segir hún og vísar þar til þess að hún undirritaði ráðningarsamning við Ólaf sem stjórn fól henni að gera en hins vegar var samningurinn aldrei borinn undir stjórnina. Síðan hafi umræðan allt í einu farið að snúast um hana.
„Mér finnst þetta óskaplega leiðinlegt og vonandi tekst að leysa þetta þannig að Neytendasamtökin verði sterkari á eftir.“
Bréf Ásu Steinunnar þar sem hún segir sig úr stjórninni er svohljóðandi:
„Þegar ég undirrituð gaf kost á mér til starfa í stjórn Neytendasamtakanna fyrir 7 mánuðum síðan hafði ég miklar væntingar til samtakanna og þeirra verkefna sem ég hafði tekið að mér. Ég var útnefnd varaformaður án þess að fá nánari skýringar á hvaða stjórnunarlega hlutverk felst í því. Fljótt komst ég að því að ekki var fyrir hendi samstarfsvilji hjá formanninum gagnvart stjórninni. Síðustu mánuðir hafa farið í að ræða þennan trúnaðarbrest sem orðinn er og hvaða ráðum má beita til að bæta fjárhagsstöðu NS. Þetta ástand hefur haft áhrif á allt starf Neytendasamtakanna og tekið kraftinn sem betur færi í að vinna að neytendamálum.
Vegna þessa og að ég sé enga lausn þessara mála í augsýn sé ég mér ekki annað fært en að segja af mér sem varaformaður og stjórnarmaður í Neytendasamtökunum.“