Meirihluti stjórnar Neytendasamtakanna (NS) segir Ólaf Arnarson, formann Neytendasamtakanna, ítrekað hafa leynt stjórn upplýsingum og skuldbundið samtökin um efni fram. Harmar meirihlutinn að traust ríki ekki milli formanns og annarra í stjórn.
Tólf stjórnarmenn NS hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem rakið er hvers vegna nefndin samþykkti vantraustsyfirlýsingu á formanninn á síðasta stjórnarfundi sem haldinn var 6. maí. Allir stjórnarmenn skrifa undir yfirlýsinguna nema formaðurinn. Síðdegis í dag sleit Ólafur stjórnarfundi þar sem til stóð að ræða átökin sem staðið hafa innan NS. Ólafur hefur gegnt embætti síðan í október.
Hér fyrir neðan má lesa yfirlýsinguna í heild:
Yfirlýsing frá 12 fulltrúum stjórnar Neytendasamtakanna
Reykjavík 22. maí 2017.
Meirihluti stjórnar Neytendasamtakanna (NS) harmar að traust ríki ekki milli formanns og annarra í stjórn. Unnið er í að leysa málin og er stjórn sammála formanni um að ekki stóð til í að standa í karpi í fjölmiðlum. Meirihluti stjórnar harmar þær rangfærslur, sem komið hafa fram í fréttaflutningi um samskipti í stjórn félagsins og sér sig knúna til að senda frá sér yfirlýsingu.
Í fyrri yfirlýsingu segir að meginástæða þess að stjórn lýsti yfir vantrausti á formann hafi verið sú að fjárhagsstaða samtakanna leyfði ekki þær skuldbindingar sem formaður stofnaði til og fóru langt fram úr þeim heimildum sem formaður hafði samkvæmt ráðningarsamningi. Ákvarðanir voru ýmist teknar fram hjá stjórn eða með því að halda frá stjórn mikilvægum upplýsingum.
Neytendasamtökin eru öflug hópsamtök sem standa á traustum grunni. En eins og í öllum rekstri þá þarf að stíga varlega til jarðar í að efla þau og styrkja. Huga þarf að jafnvægi í tekjum og útgjöldum og byggja breytingar á markvissri áætlanagerð.
Starfskjaranefnd
Á fyrsta fundi nýrrar stjórnar kom formaður fram með tillögu, sem samþykkt var af stjórn, um að setja af stað starfskjarnanefnd, sem hefði það hlutverk að fara yfir launamál starfsfólks NS og formanns. Þann 27. janúar skilaði starfskjaranefnd áliti sínu.
Álit starfskjaranefndar var ekki sent með fundarboði til stjórnar þegar ráðningarmál voru afgreidd 15. febrúar 2017. Það er þvert á lög samtakanna og loforð formanns um að álitið yrði borið undir stjórn.
Þess ber að geta að álit starfskjaranefndar er ekki á nokkurn hátt bindandi fyrir stjórn.
Launamál
Stjórn gerði þau mistök að veita varaformanni umboð til að undirrita hefðbundinn ráðningarsamning við formann, án þess að nákvæmt efni samnings hefði verið lagt fyrir stjórn. Í fundargerð kemur fram að gerður yrði hefðbundinn samningur við formann. Þegar rætt var um hefðbundinn samning, var talað um að hann væri í samræmi við launakjör og starfsskyldur fyrrverandi formanns. Í ljós kom að samningurinn reyndist ekki vera hefðbundinn í þeim skilningi. Í kjölfarið fékk formaður undirmann sinn til að leiðrétta laun sín afturvirkt, án vitneskju og heimildar stjórnar. Að mati meirihluta stjórnar er alvarlegast að formaður lét undirmann sinn greiða sér því sem nemur tæplega þriggja mánaða launum fyrir fram (að frádregnum sköttum og launatengdum gjöldum), án vitneskju og heimildar stjórnar.
Leiga á bíl
Stjórn samþykkti tillögu formanns um leigu á bifreið fyrir starfsfólk og formann NS. Stjórn setti skýran fyrirvara (bæði í tölvupósti og á stjórnarfundi) um að fjárhagsstaða NS þyrfti að leyfa slíkt. Stjórn samþykkti að leita annarra leiða um val á bifreið og leiguleiðum en formaður ákvað að fara. Fram komu nokkrar athugasemdir við fundargerð m.a. um fyrirvara og hefur uppfærð fundargerð ekki verið borin upp til samþykktar. Þegar stjórn fékk loks upplýsingar um stöðu samtakanna kom í ljós að fjárhagsstaða þeirra leyfði ekki leigu á bifreið og því skýrt að grundvöllur umboðsins var aldrei fyrir hendi. Þá hefur starfsfólk NS aldrei haft aðgang að bifreiðinni. Stjórn NS hefur samþykkt að segja upp leigu á bifreiðinni.
Smáforrit
Formaður gekk til samninga um rekstur smáforrits með þeim orðum að það yrði að kostnaðarlausu fyrir samtökin. Síðar kom í ljós að smáforritið er kostnaðarsamt. Formaður hafði ekki umboð til að ganga til fjárhagsskuldbindinga vegna smáforritsins.
Rekstraráætlun
Stjórn hefur ítrekað kallað eftir rekstraráætlun frá og með fyrsta stjórnarfundi. Óskað hefur verið eftir að í þeirri áætlun fram komi fram fjárhagsleg staða samtakanna, sem og áætlanir um aukin útgjöld og áætlanir um tímasetningu aukinna tekna. Þessi umleitan hefur ekki borið árangur. Fjármálastjóri sendi stjórn drög þann 2. apríl 2017 en engin endanleg áætlun hefur verið send til stjórnar.
Umboð formanns
Formaður var kosinn til tveggja ára á þingi samtakanna í október 2016. Í lögum samtakanna segir ekkert til um hvort formaður eigi að vera launaður starfsmaður, þiggja laun eða ekki. Það er því alfarið ákvörðun stjórnar að ákveða laun og starfshlutfall. Þingið kýs formann en ekki starfsfólk NS.
Trúnaðarbrestur
Þegar í ljós kom að formaður hafði ítrekað leynt stjórn upplýsingum og skuldbundið samtökin um efni fram, lýsti yfirgnæfandi meirihluti stjórnar yfir vantrausti á sitjandi formann. Stjórn axlar ábyrgð og vinnur hörðum höndum við að vinda ofan af málinu. Það hefur meðal annars verið gert með því að samþykktar hafa verið nýjar starfs- og siðareglur. Einnig hefur verið skipað fjármálaráð sem samanstendur af þremur stjórnarmönnum.
Samþykkt af öllum stjórnarmönnum Neytendasamtakanna nema formanni:
Ása St. Atladóttir
Björn Þór Karlsson
Dominique Plédel Jónsson
Fríða Vala Ásbjörnsdóttir
Gunnar Alexander Ólafsson
Guðni Gunnarsson
Katrín Þorvaldsdóttir
Ragnar Unnarsson
Sigurður Másson
Stefán Hrafn Jónsson
Stella Hrönn Jóhannsdóttir
Þórey S. Þórisdóttir