Vilborg komin niður í aðrar búðir

Vilborg Arna Gissurardóttir var vel búin á leið sinni á …
Vilborg Arna Gissurardóttir var vel búin á leið sinni á toppinn. Ljósmynd/Instagram-síða Vilborgar Örnu

Vilborg Arna Gissurardóttir, sem er sjöundi Íslendingurinn til að komast á topp Everest-fjalls, er komin niður í aðrar búðir sem eru í 6.400 metra hæð. Hún gekk niður úr búðum þrjú þar sem hún svaf og hvíldi sig eftir átökin og niður í búðir tvö í gær. Hún verður komin í grunnbúðir á morgun, líklega seint annað kvöld að íslenskum tíma.

Fjallagarparnir taka sér tíma til að komast niður fjallið til að passa að veikjast ekki af háfjallaveiki. Fram að þessu hefur gangan niður gengið vel. Vilborg Arna verður líklega í grunnbúðunum í um tvo daga.  

Vilborg Arna er jafnframt fyrsta íslenska konan sem kemst á topp hæsta fjalls heim. Hún náði því í þriðju tilraun. Hamingjuóskum hefur rignt yfir hana á Facebook-síðu hennar og hafa rúmlega 2.700 manns líkað við síðustu færsluna sem greinir frá því að hún hafi náð upp á topp.

Til að mynda hefur Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, óskað henni til hamingju með áfangann. 

Á svipuðum tíma og Vilborg Arna reyndi að komast upp á topp létust þrír á leiðinni og eins er saknað.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert