Sólrún Lilja Ragnarsdóttir
„Ég er bara að ráðfæra mig við lögmann. Ég er að fara yfir þessar ávirðingar sem bornar eru á mig, eftir að hafa hrakið fyrri ávirðingar með fundargerðum. Ég mun svara þessu á morgun. Þetta eru svo alvarlegar ásakanir í minn garð að það er vegið að minni æru. Það er ítrekað gert með ósannindum og dylgjum í minn garð,“ segir Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna, en stjórn samtakanna lýsti yfir vantrausti á hann í byrjun maí. „Þetta er allt staðlaust,“ bætir hann við.
Síðastliðna viku hafa deilur á milli meirihluta stjórnar og formanns verið háðar að miklu leyti í fjölmiðlum. Síðast í gær sendi meirihluti stjórnar frá sér yfirlýsingu þar sem farið var yfir þá þætti sem stuðluðu að vantraustsyfirlýsingunni.
Ólafur segir ekki fyrirhugað að halda fund í stjórninni og hann hyggst sitja áfram sem formaður þrátt fyrir vantraustið. „Ég tel að þeir stjórnarmenn sem hafa orðið uppvísir að því að fara með lognar sakir gegn mér, þeir þurfi frekar að skoða sína stöðu.“ Hann lítur því ekki svo á að hann þurfi að stíga til hliðar til að koma á friði í samtökunum. „Ég hef einlægan vilja til að vinna í friði með fólki og bendi á að það var ekki ég sem fór út með rangar sakargiftir gegn stjórnarmönnum. Það voru þeir sem gerðu það gegn mér.“