Um 20 ábendingar hafa borist Umhverfisstofnun síðustu daga vegna lyktarmengunar frá kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík. Ljósbogaofn verksmiðjunnar var gangsettur á sunnudag en ofninn hefur verið úti frá því klukkan hálfátta í gærkvöldi vegna skautbrots.
„Við vorum seinast þarna í dag þegar við fórum í eftirlit eftir ábendingar. Við staðfestum að það væri lykt á svæðinu sem var að berast þarna frá verksmiðjunni,“ segir Einar Halldórsson, verkfræðingur hjá Umhverfisstofnun.
Segir hann að viðbúið hafi verið að skautið myndi brotna, en þar sem það hafi gerst þurfi að keyra ofninn upp aftur sem geti tekið allt frá 10 klukkustundum upp í tvo daga. Hefur ofninn enn ekki verið gangsettur á ný.
„Það var alltaf vitað að þeir myndu lenda í vandræðum því ofninn var búinn að vera svo lengi úti,“ segir Einar en bætir við að ekki hafi verið búist við svona mikilli lyktarmengun. Mælistöðvar til að fylgjast með loftgæðum hafa verið settar upp bæði í verksmiðjunni og í kringum hana, auk þess sem einni slíkri hefur verið komið upp á heimili í Reykjanesbæ þar sem fólk hefur fundið lykt sem það segir koma frá verksmiðjunni.
Að sögn Einars verður náið fylgst með á næstu dögunum og ábendingum svarað. Hafa ábendingarnar síðustu daga aðallega borist frá fólki á golfvellinum og Mánagrund, þ.e. austan og norðvestan megin við verksmiðjuna. Berst lyktin þangað með suðaustan-, sunnan- og austanátt.
Einar segir lyktina stafa frá viði sem er brenndur í ofninum, en hugsanleg lausn geti verið að minnka viðinn í blöndunni og auka kol til að draga úr lyktinni.
En hvernig er framhaldið? „Það er ljóst að það er ekki hægt að hafa þetta svona lengi áfram,“ segir Einar. „Endurbæturnar sem hafa verið gerðar miðast við að koma ofninum í fulla virkni og þá mun koma í ljós hvort það hafi virkað. Ofninn er ekki búinn að komast í fulla virkni síðan á sunnudag svo það ætti að koma í ljós eftir það hvort endurbæturnar hafi virkað.“
Úrbætur hafa verið gerðar á ofninum auk ýmissa annarra framkvæmda sem farið var í, að sögn United Silicon hf., sem fór meðal annars eftir úttekt norska ráðgjafarfyrirtækisins Multikonsult. Fyrirtækið mun halda áfram að starfa með United Silicon hf. á meðan ofninn er að komast á full afköst.
Umhverfisstofnun fylgist náið með gangi mála og metur árangur úrbótanna. Fyrirtækið þarf meðal annars að senda daglega inn afrit sem sýnir afl ofnsins, sýni verða tekin til greiningar auk þess sem fylgst er með kvörtunum um lyktarmengun.
Ofninn hefur ekki náð fullri virkni frá því að eldur kom upp í kísilmálmverksmiðjunni þriðjudaginn 18. apríl. Viku síðar sendi Umhverfisstofnun frá sér tilkynningu um að stofnunin hefði stöðvað rekstur verksmiðjunnar vegna ítrekaðrar lyktarmengunar og að ofninn yrði ekki ræstur aftur nema að gefnu leyfi og í samráði við stofnunina.