Ólýsanlegt að standa á toppnum

Vilborg á toppi Everest.
Vilborg á toppi Everest. Ljósmynd/Vilborg Arna Gissurardóttir

Langþráð markmið Vilborgar Örnu Gissurardóttur rættist um helgina er hún stóð á toppi Everest, hæsta fjalls jarðar, í þriðju tilraun. Hún segir tilfinninguna hafa verið ólýsanlega og að í huga sínum risti þessi sigur mun dýpra en að ljúka sjö tinda áskoruninni.

Vilborg Arna er nú komin til Katmandú, höfuðborgar Nepal, þangað sem hún kom í morgun og heldur hún heim til Íslands á næstu dögum. „Ég var svo heppin að fá þyrlufar til Lukla úr grunnbúðunum í morgun og hélt þaðan til Katmandú,“ segir Vilborg Arna, nýkomin upp á hótel, í samtali við mbl.is.

Hún segir leiðangurinn á topp Everest í heild sinni hafa gengið ágætlega. „En það eru alltaf hindranir sem koma upp og áskoranir sem þarf að leysa og maður þarf að hafa plan A, B og C.“ Þetta er í þriðja sinn sem Vilborg Arna reynir við Everest, en hún þurfti að hætta við för á tindinn 2014 er mikið snjóflóð féll og aftur ári síðar er harður og mannskæður jarðskjálfti reið yfir Nepal.

Fjallgöngumenn á ferð eftir Summit-hryggnum á leið á tindinn. Vilborg …
Fjallgöngumenn á ferð eftir Summit-hryggnum á leið á tindinn. Vilborg Arna segir það hafa verið stórkostlegt að ganga upp yfir South Summit, annan hæsta tind Everest, og horfa yfir hrygginn. Ljósmynd/Vilborg Arna Gissurardóttir

Í fyrri skiptin hafði hún náð hæst upp í fyrstu búðir og var hún því að fara stóran hluta leiðarinnar í fyrsta skipti, þó að hún hafi vissulega verið búin að kynna sér aðstæður vel. Þá hefur hún einnig áður komið á tind sem er yfir 8.000 metrar og þekkir því þær áskoranir sem fylgja háfjallaloftinu.

Veðurfarið óvenjuerfitt

Vilborg Arna segir aðstæður á Everest hafa verið virkilega erfiðar þetta árið. „Veðurfarið var óvenjuerfitt og það er búið að vera kalt, hvasst og hefur snjóað mikið,“ útskýrir hún. Þá var líka mikil lausamjöll sem gerir leiðina erfiðari yfirferðar, þannig að þetta hefur tekið sinn toll.“

Óvenjumargir hafa reynt að komast á topp Everest þetta árið. Alls hafa 382 náði á topp Everest með því að klífa suðurhlíðina í vor og 120 Tíbet-megin. Vilborg Arna segir þennan fjölda vísa til bæði erlendra fjallgöngumanna og aðstoðarfólks úr röðum heimamanna. Hún segir það þó hafa komið sér á óvart að hafa ekki orðið meira vör við fjöldann, en sjálf var hún undir það búin að verða vör við meiri örtröð.

„Það hafa líka margir gefist upp og farið heim, síðan hafa aðrir veikst og svo hefur þetta haft enn alvarlegri afleiðingar,“ segir hún og vísar þar til þess að sex, raunar mögulega 10 manns, hafa farist í efri hlíðum Everest það sem af er klifurvertíðinni þetta árið.

Vilborg Arna bendir á að sjálf hafi hún hætt við uppgöngu 20. maí. „Það gerði ég af því að aðstæður voru erfiðar og ég taldi betra að bíða en að fara af stað. Ég þekki ekki öll þessi tilfelli, en vissulega er það svo að þegar aðstæður eru erfiðar þá er hætta á að menn séu á toppnum of seint og nái þá ekki til baka.“

Vilborg Arna og sjerpinn Tenjee á toppi Everest. Hún segir …
Vilborg Arna og sjerpinn Tenjee á toppi Everest. Hún segir tilfinninguna að komast á toppinn hafa verið ólýsanlega og hún sé raunar ekki enn búin að meðtaka þetta að fullu. Ljósmynd/Vilborg Arna Gissurardóttir

Njóta útsýnisins en ekki missa einbeitinguna

Þegar gengið er á fjall eins og Everest þarf göngufólk að vera stöðugt í viðbragðsstöðu og segir Vilborg Arna að hún hafi ekki slappað almennilega af aftur fyrr en hún var komin aftur niður í grunnbúðir. „Maður er ekki búinn fyrr en maður er kominn alla leið til baka og flest slys verða á niðurleiðinni, þannig að maður má aldrei missa einbeitinguna. Maður verður að leyfa sér að njóta útsýnisins og göngunnar, en vera mjög einbeittur á sama tíma.“

Útsýnið var líka stórkostlegt að hennar sögn. „Maður gengur þarna upp í myrkri og svo kemur sólin upp og það er stórkostlegt augnablik,“ segir Vilborg Arna. „Það var stórkostlegt að komast loksins á þessa staði, að ég tali nú ekki um Summit-hrygginn sem er alveg ólýsanlega fallegur.“ Þar vísar hún til hryggjarins á lokaleiðinni upp á Everest. „Það var stórkostlegt að ganga upp yfir South Summit, annan hæsta tind Everest, og sjá þetta.“

Það reynir mikið á bæði líkamlega og andlega að ganga á topp Everest og kveðst Vilborg Arna persónulega líta á það sem mikla ábyrgð að fara á tindinn. „Maður þarf að kynna sér málin vel fyrir fram varðandi aðstæður og veðurfar, hvar aðrir séu í fjallinu og hvað sé að gerast í kringum mann. Á þessu er aldrei pása. Maður er alltaf að horfa í kringum sig og vega og meta aðstæður.“

Góð samvinna með sjerpanum Tenjee

Að þessu sinni ákvað Vilborg Arna að kaupa sig ekki inn í leiðangur með fleirum, heldur vera í tveggja manna teymi með sjerpanum Tenjee. Spurð hvers vegna hún hafi valið þessa leið, segir hún þetta vera eitthvað sem sig hafi langað til að gera og hún hafi talið sig vera tilbúna. „Ég hef farið áður yfir 8.000 metra og var núna að vinna með sjerpa sem hefur langa reynslu af því að vinna á Everest. Saman mynduðum við Tenjee gott teymi og það ríkti mikið traust á milli okkar og við tókum allar ákvarðanir í sameiningu.“

Útsýnið af tindi Everest er óneitanlega stórfenglegt. Þessa mynd tók …
Útsýnið af tindi Everest er óneitanlega stórfenglegt. Þessa mynd tók Vilborg Arna þegar hún stoppaði þar uppi. Ljósmynd/Vilborg Arna Gissurardóttir

Henni fannst líka áhugavert að Tenjee er líka lama, sem er starfsheiti tíbetskra búddistapresta. „Þannig að það var beðið á morgnana og svo var ákveðin athöfn áður en farið var í gegnum vissa staði á fjallinu. Það var mögnuð reynsla og nokkuð sem ég kunni mjög vel að meta.“

Spurð hvernig það hafi svo verið að standa loks á toppi Everest svarar Vilborg: „Ég veit eiginlega ekki enn þá. Það að hafa loksins náð að klífa fjallið og standa á toppnum er ólýsanlegt, en þetta er líka stórt verkefni sem tekur á og það tekur tíma að síast inn.“

Leiðin á Everest ekki rósum stráð

Everest er síðasti tindurinn í sjö tinda áskorun sem Vilborg Arna setti sér árið 2013. Hún segir það þó mun stærri sigur að hafa loks komist á Everest, en að ljúka þeirri áskorun.

„Everest er hæsta fjall heims og þó að ég hafi áður farið á 8.000 metra tind er Everest miklu hærri. Aukinheldur er Everest mjög erfitt fjall sem tekur langan tíma að klífa,“ segir hún og bendir á að það taki 6-8 vikur að aðlagast og klífa á Everest tind, en ekki nema um tvær vikur að aðlagast og komast á tind Cho Oyu, sem er sjötta hæsta fjall heims og 8.201 metri. „Allur þessi 8.000 metra bransi er á öðru plani, en aðrar göngur varðandi lengd og úthald,“ útskýrir Vilborg.

„Þess utan hefur leið mín á Everest hvorki verið á rauðum dregli né rósablöðum stráð, þannig að fyrir mig þá var þetta miklu dýpra en að klára þetta sjö tinda verkefni. Þetta snerist líka um að stíga inn í ákveðinn kafla í lífinu og vinna úr því og auðvitað er mikið spennufall þegar vel tekst til.“

Líkt og sagði í upphafi er Vilborg Arna nú komin aftur til Katmandú heil á húfi, með alla fingur og tær en svolítið sólbrunnin eins og hún lýsir því sjálf. Hún er ekki enn búin að kaupa sér flugmiða til Íslands, en stefnir þó á að koma heim aftur á næstu dögum og þá taka við ný og fjölbreytt ævintýri, enda er Vilborg Arna hvergi nærri hætt að vera á faraldsfæti. „Ég er að gefa út bók með Pálínu Ósk Hraundal, vinkonu minni, fljótlega eftir að ég kem heim. Þetta er útilífsbók fyrir fjölskyldur og hún er búin að vera í þrjú ár í vinnslu hjá okkur. Síðan verð ég með ferðir til Grænlands síðsumars og í haust og loks með ferðir til Nepal síðar í haust.“

Blaðamanni leikur að lokum forvitni á að vita hvort Vilborg Arna stefni sjálf á einhverjar fleiri náttúruáskoranir. „Ég held að ég sé góð í bili,“ segir hún, „en spurðu mig aftur eftir tvo mánuði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka