Fangar á Litla-Hrauni hafa vart haft undan við bílnúmeraframleiðslu síðustu vikur, en sprenging hefur orðið í framleiðslunni. Á Litla-Hrauni eru allar bílnúmeraplötur landsins framleiddar en tveir til þrír fangar starfa að jafnaði við framleiðsluna í einu.
„Menn hafa unnið yfirvinnu og allir sem mögulega geta komið að þessu gera það, hvort sem það eru fangar eða fangaverðir,“ segir Páll Winkel fangelsismálastjóri.
Stærsta árið frá upphafi framleiðslunnar var árið 2007 þegar framleidd voru 70.430 númer. Þetta árið eru góðar líkur á að metið verði slegið en það sem af er ári hafa verið framleidd tæplega 38 þúsund bílnúmer, þar af tæplega 10 þúsund númer í maímánuði. Til samanburðar má benda á að allt árið 2009 voru framleidd 15 þúsund númer og í fyrra, árið 2016, voru þau 69 þúsund.
„Það kom einn dagur núna í maí þar sem voru framleiddar 2.000 plötur. Þá er vitlaust að gera,“ segir Páll, en setja þarf hvern staf fyrir sig í pressu og stimpla svo. „Tíu þúsund plötur á einum mánuði er eitthvað sem við höfum aldrei séð áður.“
En er þetta merki um að það sé von á hruni? „Það er nú aldeilis ekki vísindalega kannað hjá okkur en við erum með skemu þar sem menn sjá hvernig þróunin var upp til ársins 2008 og hún er ekki ólík núna,“ segir Páll.
Hann segist þó alsæll með fjölda pantana enda sé þetta atvinnuskapandi fyrir fanga fangelsisins. „Menn skipta þessu niður á milli sín og svo er unnið myrkranna á milli. Við erum alsæl með þetta á meðan svona gengur,“ segir hann.
Auk venjulegra bílnúmeraplatna eru framleidd einkanúmer og hvers kyns önnur númer, en hver sem er getur pantað sérútbúna númeraplötu. „Við tökum bara við pöntunum og þolum alveg meiri þenslu,“ segir Páll.
Langstærstan hluta segir hann vera bílnúmeraplötur en sérpantanir hafi þó verið að aukast. Þá séu fleiri vörur framleiddar á Litla-Hrauni en þar er m.a. fullmótað tréverkstæði og stálsmíði. „Hér eru til dæmis framleidd fuglahús og garðbekkir svo eitthvað sé nefnt,“ segir Páll að lokum.