Vigdís gengur í Framfarafélagið

Vigdísi líst vel á hugmyndina um Framfarafélagið og telur slíkt …
Vigdísi líst vel á hugmyndina um Framfarafélagið og telur slíkt vanta í íslenskt samfélag. mbl.is/Styrmir Kári

Vigdís Hauksdóttir, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, ætlar að taka þátt í starfi Framfarafélagsins, nýs félags Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi formanns flokksins, sem formlega verður stofnað á laugardaginn. Þetta staðfestir Vigdís í samtali við mbl.is.

„Ég ætla að mæta á laugardaginn. Mér líst rosalega vel á þessa hugmynd. Eins og þetta er kynnt eru þarna mikil sóknarfæri í að kynna mál og koma þeim á framfæri.“

Félagið á að stuðla að framförum á öllum sviðum samfélagsins og að stofnun þess kemur fjölbreyttur hópur fólks, að sögn Sigmundar Davíðs Gunnlaussonar, sem er í ítarlegu viðtali í Morgunblaðinu í dag. Um er að ræða framsóknarmenn, fólk úr öðrum stjórnmálaflokkum og fólk sem aldrei hefur haft formleg afskipti af stjórnmálum.

Frétt mbl.is: Sigmundur boðar stofnun nýs félags

„Það má lík­lega segja að þetta sé nokk­urs kon­ar sam­bland þjóðmála­fé­lags og hug­veitu og til­gang­ur þess er að skapa vett­vang fyr­ir frjálsa umræðu fyr­ir hin ýmsu sam­fé­lags­mál, þar sem hægt verður að koma á fram­færi hug­mynd­um og lausn­um við þeim vanda­mál­um sem sam­fé­lagið stend­ur frammi fyr­ir og hvernig við get­um nýtt sem best þau tæki­færi sem okk­ur bjóðast,“ segir Sigmundur um félagið.

Í viðtali í Morgunblaðinu í dag segir Sigmundur að félagið …
Í viðtali í Morgunblaðinu í dag segir Sigmundur að félagið eigi að stuðla að framförum á öllum sviðum samfélagsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég held að þetta sé það sem vantar í íslenskt samfélag núna. Að fólk hittist og ræði málin. Taki upp mál sem brenna á hverju sinni og fái nýja vinkla á þau. Ég gæti vel hugsað mér að sjá þetta þróast þannig að það verði fengnir bæði innlendir og erlendir fyrirlesarar,“ segir Vigdís.

Hún telur að félagið muni örugglega koma til með að hafa einhver áhrif innan Framsóknarflokksins, líkt og annars staðar. „Þegar efnt er til funda eða ráðstefna þá fer það oft í fréttir, þar sem báðum sjónarmiðum er komið á framfæri. Þetta er kynnt sem veita, þar sem nýjum hugmyndum er velt upp.“

Sigmundur segir sjálfur í viðtalinu að hann vonist til að Framfarafélagið styðji við grasrótina í flokknum og að sem flestir framsóknarmenn taki þátt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert