Vilborg Arna Gissurardóttir Everest-fari kom til landsins nú í kvöld, en hún komst á toppinn aðfaranótt 21. maí. Tómasz Þór Veruson, kærasti Vilborgar Örnu, fór út til Amsterdam og tók á móti henni þar í dag, en fjölskylda og vinir mættu á Keflavíkurflugvöll og fögnuðu heimkomu hennar nú í kvöld.
„Takk, ég veit ekki hvað ég á að segja nema takk,“ sagði Vilborg eftir að hafa faðmað foreldra sína sem voru meðal þeirra sem mættu út á flugstöð. Fjölmörg gleðitár komu fram og mikið var um hlátur hjá Vilborgu og þeim sem tóku á móti henni.
Sögðu vinir hennar í gamansömum tón að nú væri hún komin heim og færi vonandi ekki út á ný, alla vega ekki alveg strax.
Vilborg Arna varð sjöundi Íslendingurinn sem náði að komast á topp fjallsins og fyrsta konan.