Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins, er genginn í Framfarafélagið, nýtt félag Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi formanns flokksins. Stofnfundur félagsins fór fram í gær og var vel sóttur. „Ég held að þetta sé góður vettvangur þar sem ólíkir aðilar úr ólíkum áttum koma saman og ræða mál dagsins og framtíðarinnar,“ segir Gunnar sem vonast til að innan félagsins verði hægt að nálgast verkefni út frá víðara sjónarhorni en mögulegt er innan stjórnmálaflokka.
Hann telur ekki að stofnun Framfarafélagsins komi til með að ýta undir frekari klofning innan Framsóknarflokksins. Þá vill hann ekki meina að sá hópur sem hefur verið óánægður með forystu flokksins sé að draga sig út úr honum og færa sig yfir á þennan vettvang.
„Flokkurinn er einfaldlega í miklum vanda sem þarf að leysa úr, en þetta félag hefur engin áhrif á það. Það voru þarna einstaklingar sem eru mjög hrifnir af Sigmundi og því sem hann hefur fram að færa, aðrir úr flokknum sem styðja ekkert endilega Sigmund og svo fólk utan úr bæ. Þetta var fjölbreyttur hópur.“
Gunnar segist spenntur að sjá hvernig félagið komið til með að þróast, enda ráðist svona félagsskapur af því hvaða málefni verða rædd næst. Hann sér þó ekki fyrir sér að Framfarafélagið komi til með að þróast út í stjórnmálaafl. „Ég sé enginn merki þess eðlis, en ég veit þó ekkert um það. Ég er þarna af því þetta er flottur og áhugaverður félagsskapur. Ég er hins vegar framsóknarmaður og verð í Framsóknarflokknum áfram. Ég fæddist inn í flokkinn og sé ekki annað fyrir mér en að drepast út úr honum líka,“ segir Gunnar kíminn. Hvað sem verður úr Framfarafélaginu er hann því að minnsta kosti ekki tilbúinn að ganga í nýjan flokk.
Hann vonast hins vegar til að Framfarafélagið, og umræðan sem þar kemur til með að fara fram, muni hafa jákvæð áhrif á Framsóknarflokkinn og umræðu um þjóðfélagsmál almennt.