Birgittu Jónsdóttur, kapteini Pírata, þykir stórmerkilegt að fylgjast með skyndilegri aukningu á neytendavitund Íslendinga með komu Costco til landsins, en hún hefur fylgst grannt með umræðu og upplifun landans af versluninni síðustu daga. Þetta kom fram í ræðu hennar á eldhúsdagsumræðum sem standa nú yfir á Alþingi. Hún er ánægð með að tæplega 63 þúsund manns deili verði og myndum frá versluninni í Facebook-hópi, öðrum til gagns.
Birgitta telur þessa samstöðu geta nýst á öðrum vettvangi. „Næsta bylgja samstöðu og hjálpsemi af þessu tagi gæti auðveldlega orðið um laun og launatengd réttindi, nú þegar margir samningar losna. Svo má ekki gleyma heilbrigðiskerfinu. Því má reyndar ekki gleyma að fjölmennasti undirskriftalisti lýðveldisins var um endurreisn heilbrigðiskerfisins korteri í kosningar og samt láta ráðamenn eins og það skipti engu máli.“
Birgitta sagði að mörg teikn væru á lofti sem bentu til þess að við værum í hagsældarbólu, sem hafði jákvæð áhrif rétt eftir hrun. Neikvæð áhrif þenslunnar væru hins vegar farin að láta á sér kræla.
„Það er eðli bólu hagkerfis að það hjaðnar yfirleitt, en bólur eru líka stundum graftarkýli og graftarkýli þarf stundum að stinga á og hreinsa vel og vandlega með sótthreinsandi efnum. Bólur hafa líka tilhneigingu til að koma aftur og aftur ef engu er breytt og nú erum við stödd á þeim stað að það sem hafði frábær áhrif til skamms tíma er farið að valda verulegu tjóni til framtíðar og eiginlega ekkert hægt að gera nema að undirbúa sig undir að það springi.“
Birgitta sagðist hins vegar búin að fá nóg, hana langar að gera eitthvað magnað. „Lýðræðið krefst hugsjóna, alúðar og bíræfni, enginn fékk nokkru sinni réttindi upp í hendurnar, alvörumannréttindi kröfðust baráttu og samstöðu. Við píratar viljum nýjan jarðveg, því það er ekki hægt að uppræta spillingarrótina með því að krafsa bara í yfirborðið.“
Hún sagði pírata hafa boðað kerfisbreytingar í aðdraganda kosninga og sýnt það í verki að flokkurinn þyrði að fara út fyrir hefðirnar. Þau hafi kallað eftir bindandi samkomulagi flokka fyrir kosningar um hverju væri hægt að vinna að eftir kosningar. „Ég held að við værum með betri ríkisstjórn ef það hefði gengið eftir og aðrir hefðu þorað. Þá væru ekki svona margir vonsviknir eins og gerist alltaf eftir kosningar.“
Birgitta sagði pírata hafa viljað uppfæra Ísland með nýrri stjórnarskrá og það vildu þeir enn gera. Þannig væri hægt að svara kalli þjóðarinnar um nýjan samfélagssáttmála.
„Það breytist ekkert nema að það sé alvöruþrýstingur á þingið utan frá. Rétt eins og Costco er að þrýsta verðinu niður í öðrum búðum, sem utanaðkomandi aðili, þá er þrýstingur frá almenningi það sem þarf til að búa til réttlátara samfélag. Þrýstingur frá ykkur á okkur á þingi.“