„Gott að vinna með Ögmundi“

Brynjar Níelsson alþingismaður.
Brynjar Níelsson alþingismaður. mbl.is/Eggert

„Ég ætla ekki að fjalla um það núna hvað við erum góð í meirihlutanum og hvað þið eruð slöpp í minnihlutanum.“ Á þessum orðum hófst ræða Brynjars Níelssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, í Eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld.

„Eins og síðast hafa samflokksmenn mínir tekið af mér allan ræðutímann. Ég hallast að því að þetta séu nú samantekin ráð, sennilegast til að halda ró í þessum sal,“ sagði Brynjar glettinn við hlátur í salnum.

Hann sagðist hafa upplifað það, „eins og þið kannski öll, að við erum ekki að slá í gegn hjá almenningi. Og ég hef lengi velt fyrir mér af hverju það er, eins æðisleg og við erum. Og hvernig lögum við það?

Ég veit það ekki, en ég er alveg viss um það, að við lögum það ekki með því að fara á samfélagsmiðlana og heyra hvað þeir háværustu segja þar. Ég held að við lögum það með því að hafa góðar hugmyndir, vel ígrundaðar og rökstuddar, og ekki er verra að hafa einhverja framtíðarsýn,“ sagði Brynjar ákveðinn.

„Við þurfum að hafa sjálfstraust til að koma þessum hugmyndum á framfæri, vera sannfærandi, leiða, og takast á um þetta. Við þurfum að hafa skoðanir, jafnvel þó að einhver rísi upp á afturfæturna.“

Ögmundur Jónasson fékk mikið lof frá Brynjari.
Ögmundur Jónasson fékk mikið lof frá Brynjari. mbl.is/Árni Sæberg

Nokkurn veginn ekki sammála um neitt

Þá sagðist hann telja að fólk gerði ekki þá kröfu að alþingismenn þyrftu að vera sammála því um allt.

„Ég held að við getum notið trausts hjá fólki sem er ekki sammála okkur,“ sagði Brynjar og bætti við að hann hefði gott dæmi um þetta.

„Af því ég sat hér nú á síðasta þingi með Ögmundi Jónassyni. Við erum nokkurn veginn ekki sammála um neitt,“ sagði Brynjar og uppskar aftur hlátur.

„En ég bar mikið traust til hans. Hann var samkvæmur sjálfum sér, hann barðist fyrir sínu, hann hafði hugsjónir [...] Að vísu ekki sérstaklega góður málstaður,“ skaut Brynjar inn í við enn meiri hlátur.

„En ég gat alltaf treyst honum. Og það er gott að vinna með Ögmundi,“ sagði Brynjar áður en hann benti í skyndi á að tími sinn væri fyrir löngu búinn. Bað hann forseta um leið að afsaka sig og vék úr ræðustól.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert