Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, segir stjórnarkreppu vera í landinu og því sé best að kjósa aftur. Þetta kom fram í ræðu hennar á eldhúsdagsumræðum, sem standa nú yfir á Alþingi. Hún benti jafnframt á að sveitarstjórnarkosningar væru á næsta ári og að undirbúningur væri þegar hafinn.
„Undirbúningur kosningabaráttunnar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2018 er hafinn og þar þurfum við öll sem viljum sjá félagshyggju í verki að leggjast á eitt. Við þurfum að koma sterk út úr kosningunum að ári um land allt til að tryggja sveitarfélögunum örugga forystu og til að losa þjóðina út úr stjórnarkreppunni sem stendur enn. Stjórnarflokkarnir verða að fá rækilega áminningu í sveitarstjórnarkosningunum, allir með tölu, ef einhver í þeirra röðum sér ekki að sér fyrr. Það þarf ekki nema einn til að velta þessari stjórn.“
Svandís kallaði Bjarta framtíð og Viðreisn hjálparflokka Sjálfstæðisflokksins, og sagði þá flokka vera í kreppu. Þeir hefðu kosið að afhenda Sjálfstæðisflokknum meira vald en hann á innistæðu fyrir. „Kjósendum þeirra og jafnvel þeim sjálfum er ljóst að þeir koma engu í gegn af stefnumálum sínum, engu. Þeir kusu að fara með Sjálfstæðisflokknum í stjórn frekar en að standa að myndun félagshyggjustjórnar sem hefði snúist um jöfnuð og réttlæti. Þeir lofuðu betra heilbrigðiskerfi, betra skólakerfi, að allt yrði betra. Ekkert fúsk, sagði Björt framtíð. En stjórnarhættirnir endurspegla allt annað, lítið fer fyrir forystu og samráði, vinnubrögðin eru fálmkennd og ákvarðanir illa rökstuddar.“ Svandís sagði ljóst að það stefndi í söguleg kosningasvik.
Svandís sagði tillögur Vinstri grænna skýrar, málefnalegar, ábyrgar og fjármagnaðar, enda væru til peningar í þjóðfélaginu. Peningarnir væru hjá þeim efnuðustu og Vinstri grænir hefðu sýnt fram á leiðir til að sækja þá. Hún sagði Vinstri græna í sókn vegna þess að stefna þeirra væri skýr og trúverðug. „Við viljum berjast gegn sveltistefnu, hættulegum einkavæðingartilburðum og auknum ójöfnuði. Við viljum halda því til haga að ríkisstjórnin byggir á minnihluta atkvæða, er veik og hefur ekkert umboð til að standa fyrir grundvallarbreytingum á samfélaginu þvert á vilja almennings í landinu.“