Pawel Bartoszek, þingmanni Viðreisnar, þykir málum er varða erlenda ríkisborgara sem hingað koma, ekki hafa miðað nægilega hratt á þinginu sem er að ljúka. „Við höfum aðallega verið að laga augljósa galla á nýsettum útlendingalögum sbr. frumvörp um dvalarleyfi maka og skiptinema,“ sagði hann í ræðu sinni á eldhúsdagsumræðum á Alþingi, sem standa nú yfir. Hann minnti á að það hefði verið ein af grunnáherslum Viðreisnar fyrir síðustu kosningar að Ísland skyldi vera opið fyrir fólki alls staðar að úr heiminum.
„Reyndar voru lögð fram þrjú frumvörp sem öll hefðu falið í sér ákveðnar réttarbætur í þessum málaflokki, þetta voru frumvörpin um bann við mismunun innan vinnumarkaðar sem utan sem og frumvarp um ríkisfangsleysi. Ekkert þeirra varð þó að lögum, því miður.“
Hann sagði frumvarpi þingmanna Viðreisnar um aukinn kosningarétt erlendra ríkisborgara reyndar hafa verið vel tekið og vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari vinnslu.
„En áfram er landið lokað fyrir fólki frá löndum á sunnanverðum Balkanskaga eða öðrum löndum utan Evrópu. Áfram þurfa þeir sem hyggjast flytja til Íslands að reiða sig á kerfi sem alls ekki er hugsað fyrir hefðbundna fólksflutninga. Þessu þarf að kippa í liðinn. Og við ætlum að sjá til þess að það verði gert.“
Pawel benti á að teikn væru á lofti um að almenningur í Evrópu væri að senda kurteis en ákveðin skilaboð gegn uppgangi öfgaflokka og einangrunarhyggju. „Og þar getur fólk treyst á okkur í Viðreisn. Fólk getur treyst því, að þegar þjóðernispopúlisminn mun banka upp á með sinn boðskap munum við mæta honum. Og segja: „Nei, takk, bless.“