Mikill eldsvoði á Akureyri

Bátasmiðjan á Akureyri brann til kaldra kola í nótt.
Bátasmiðjan á Akureyri brann til kaldra kola í nótt. Af Facebook-síðu lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Eldur kviknaði í bátasmiðju við Goðanes á Akureyri skömmu eftir miðnætti í nótt og logar eldur enn í húsnæðinu. Gríðarlegan reyk lagði frá húsinu og er reykjarlykt yfir öllu á Akureyri. Mikill eldsmatur er í húsinu en þar eru framleiddir plasttrefjabátar, að sögn Jóhannesar Sigfússonar, varðstjóra í lögreglunni á Akureyri.

Lögreglan á Akureyri varð vör við eldinn klukkan 00:42 í nótt og var allt tiltækt lið slökkviliðs Akureyrar kallað út auk lögreglu. 

Bætt við klukkan 5:52 

Enn er unnið að slökkvistarfi og ekki hefur tekist að slökkva allan eld í húsinu. Að sögn Jóhannesar er verið að nota krabbakló við að rífa ofan af húsinu til þess að auðvelda slökkvistarfið.

Jóhannes segir að húsið sé 1.200 fm að grunnfleti en með millilofti er húsnæðið 1.850 fm að stærð. 

Ekki er vitað um eldsupptök segir Jóhannes enda slökkvistarf enn í gangi. Eldur kom upp í sama húsnæði 27. janúar sl. 

Mikill viðbúnaður var vegna eldsvoðans þar sem mjög mikill reyk lagði frá húsinu og hafði lögreglan áhyggjur af reykmengun sem lagðist yfir hluta Akureyrar og bæjarbúar í fastasvefni.

Meðal annars kom til greina að senda neyðarskilaboð í alla farsíma á svæðinu og að keyra um hverfið í nágrenninu með sírenur og kallkerfi og vekja íbúa. „En sem betur fer kom ekki til þess,“ segir Jóhannes. 

Norðanátt er yfir Akureyri og lagði reykinn yfir vestari hluta bæjarins en sem betur fer var mikill hiti í reyknum þannig að hann steig upp og lagðist ekki mikið yfir bæinn. „En það er lykt yfir bænum enda mikill bruni og gífurlegur reykur á tímabili,“ segir Jóhannes í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert