Hyggjast reka hótel á Þúfu

Þúfa í Kjós.
Þúfa í Kjós. mbl.is

Vellauðug fjölskylda frá Singapúr, Pang-fjölskyldan, hefur fest kaup á jörðinni Þúfu í Kjós og hyggur á hótelrekstur þar og vistvæna ferðamennsku. Erlendir, auðugir ferðamenn sem koma til landsins til þess að njóta íslenskrar náttúru verða markhópur fjölskyldunnar. Björn G. Ólafsson, sem seldi Melissu Pang jörðina, staðfesti þetta í samtali við Morgunblaðið í gær.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins er fjölskyldan vellauðug og á m.a. skipafélag og hótelkeðju. Hún mun leggja mikið upp úr vistvænum rekstri og umhverfisvernd.

Upphaflega fór fjölskyldan fram á leyfi fyrir jarðarkaupunum í innanríkisráðuneytinu, en fékk synjun þar sem hún er ekki búsett á evrópska efnahagssvæðinu. Dóttir Pang-hjónanna, Melissa Pang, flutti þá lögheimili sitt til Íslands og er hún skráð fyrir kaupunum.

Guðný G. Ívarsdóttir, sveitarstjóri í Kjós, kveðst í samtali við Morgunblaðið vera ánægð með áform fjölskyldunnar, en ekki sé búið að ganga frá breyttu skipulagi landareignarinnar. Kjósarhreppur geri ekki athugasemdir, þar sem jörðin sé ekki lengur væn til ábúðar.

Hafsteinn M. Einarsson, lögfræðingur hjá PWC, hefur verið umboðsmaður Pang-fjölskyldunnar í jarðarkaupunum. Hann sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að von væri á fjölskyldunni til landsins síðar í þessum mánuði og eftir að hún væri komin til landsins myndu áform hennar um nýtingu Þúfu skýrast.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert