Konurnar fyrstar á Ísafirði

Björn Helgason var fyrsti landsliðsmaður Ísfirðinga í fótbolta.
Björn Helgason var fyrsti landsliðsmaður Ísfirðinga í fótbolta.

Verið er að leggja lokahönd á bók um sögu knattspyrnunnar á Ísafirði og er gert ráð fyrir að hún komi út 23. júní nk. Sömu helgi verður haldið Púkamót á Ísafirði, þar sem „heldri“ knattspyrnumenn á og frá Ísafirði koma saman.

Það er einmitt Félag um Púkamót á Ísafirði sem gefur bókina út og fékk það Sigurð Pétursson sagnfræðing til þess að taka saman söguna og vinna efnið til prentunar.

Ungir menn byrjuðu að leika knattspyrnu á Ísafirði upp úr aldamótunum 1900. Sigurður bendir á að þá hafi kaupstaðurinn verið annar stærsti bær landsins ásamt Akureyri og mikið um að vera. Vélbátarnir hafi verið að ryðja sér til rúms, menningar- og félagslíf hafi verið í blóma og fótboltinn hafi verið hluti af því.

„Fyrsti opinberi fótboltaleikurinn, sem við vitum um, fór fram á þjóðhátíð í byrjun ágúst 1905,“ segir hann. „Fyrirliðarnir höfðu báðir gengið í Lærða skólann í Reykjavík og kynnst þar íþróttinni, en eins og fyrir sunnan voru það einkum skólapiltar og iðnaðarmenn, sérstaklega prentarar, sem voru áberandi í fyrstu fótboltaliðunum.“

Meistarar í 1. tilraun

Fyrsta knattspyrnufélagið á Ísafirði, Fótboltafélag Ísafjarðar, var stofnað 1914. „Sama ár var líka stofnað Kvennaknattspyrnufélagið Hvöt, fyrsta knattspyrnufélag kvenna á landinu,“ segir Sigurður. Hann vekur athygli á að Brynjólfur Jóhannesson leikari, síðar Íslandsmeistari með Fram, hafi verið á meðal fyrstu liðsmanna karlaliðsins.

Sigurður Pétursson.
Sigurður Pétursson.

Knattspyrnufélagið Hörður var stofnað 1919 og er enn starfandi. Eftir að Fótboltafélagið lagðist niður og konurnar voru hættar í fótbolta var Knattspyrnufélagið Vestri stofnað 1926, en þegar Ísfirðingar tóku fyrst þátt í Íslandsmóti 1. flokks 1939 tefldu þeir fram sameiginlegu liði. Þeir urðu Íslandsmeistarar og voru aftur með 1940 en síðan ekki fyrr en 1955, þegar 2. deild var stofnuð. Þeir léku til úrslita um sæti í 1. deild fimm ár í röð og náðu loks takmarkinu, léku í efstu deild 1962 og svo aftur 1982 og 1983. Kvennaknattspyrnan var endurvakin um svipað leyti og áttu Ísfirðingar lið í efstu deild í þrjú ár á níunda áratugnum.

„Það hefur gengið á ýmsu en bókin fjallar um félögin, bæjarlífið og hvernig þau tengjast,“ segir Sigurður. „Saga fótboltans er hluti af okkar nútímamenningu og knattspyrnuhefðin er gríðarlega rótgróin á Ísafirði.“

Hörður og Vestri hafa gengið í gegnum endurnýjun lífdaga. Vestri er nafn sameiginlegs íþróttafélags á norðanverðum Vestfjörðum, stofnað í fyrra, og Hörður var endurreistur og hefur spilað í 4. deild frá 2014. „Sagan er því komin í hring,“ segir Sigurður.

Margir snillingar

Margir góðir knattspyrnumenn hafa komið frá Vestfjörðum og spilað með Ísfirðingum og öðrum liðum. Björn Helgason var fyrsti landsliðsmaður Ísfirðinga en auk þess má nefna að Ísfirðingurinn Jón Ólafur Jónsson var fjórum sinnum Íslandsmeistari með Keflavík eftir að hafa spilað með Ísfirðingum í efstu deild. Ómar Torfason lék meðal annars með Víkingi, Magni Blöndal með Val og Matthías Vilhjálmsson, Noregsmeistari með Rosenborg, og Emil Pálsson, leikmaður FH, sem báðir eiga landsleiki að baki, eru uppaldir Ísfirðingar og hófu ferilinn á Ísafirði. „Við eigum okkar knattspyrnuhetjur, bæði karla og konur, og þær fá sitt rými í bókinni,“ segir Sigurður.

Fyrir hönd Félags um Púkamót vann útgáfunefnd með höfundi að bókinni. Í henni eru Halldór Jónsson, Stefán Jóhann Stefánsson, Haraldur Leifsson, Guðmundur Ólafsson og Frímann Sturluson. Þrír síðastnefndu ásamt Jóhanni Torfasyni eru frumkvöðlar Púkamótsins. Það hefur verið haldið árlega síðan 2005 og styrkt uppeldisstarf knattspyrnunnar á Ísafirði. Í formála bókarinnar segir Halldór Jónsson að bókin sé gefin út fótboltamönnunum, ósérhlífnum forystumönnum og þolinmóðum stuðningsmönnum til heiðurs.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka