Aðalmeðferð í annað skiptið í Marple-málinu svokallaða hefst í næstu viku og mun taka fimm daga, en það er jafn langt og aðalmeðferðin tók í fyrra skiptið. Málið var upphaflega flutt í Héraðsdómi Reykjavíkur í september árið 2015 og féll dómur í október sama ár.
Aðalmeðferðin hefst 8. júní og samkvæmt áætlun fara skýrslutökur fram til mánudagsins 12. júní. 13.-14. júní mun svo málflutningur ákæruvalds og verjenda fara fram.
Í héraði var Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings, dæmdur í sex mánaða fangelsi, Magnús Guðmundsson, fyrrum bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg, var dæmdur í 18 mánaða fangelsi og Skúli Þorvaldsson fjárfestir var dæmdur í sex mánuði. Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrum fjármálastjóri bankans var sýknuð af öllum ákærum. Hæstiréttur ógilti síðar niðurstöðu héraðsdóms í málinu og vísað því aftur í hérað.
Vísaði rétturinn til þess að sérfróðan meðdómsmann í málinu brysti hæfi, einkum vegna ummæla og athafna á samfélagsmiðlum þar sem hann lýsti eindreginni afstöðu sinni um málefni bankans og stjórnenda hans.
Símon Sigvaldsson héraðsdómari er dómsformaður málsins eins og við fyrri umferð þess en Kristrún Kristinsdóttir verður meðdómari og Jón Hreinsson sérfróður meðdómari.