Hæstiréttur hefur sýknað íslenska ríkið af kröfum Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings, sem krafðist þess að úrskurðir ríkisskattstjóra og yfirskattanefnfdar, þar sem endurákvörðuð voru gjöld Sigurðar gjaldárin 2007, 2008 og 2009, yrðu felldir úr gildi.
Hæstiréttur staðfesti þar með dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá því fyrir ári síðan. Sigurður var einnig dæmdur til að greiða ríkinu eina milljón króna í málskostnað.
Í málinu var deilt um hvort skattleggja bæri tekjur af kauprétti á hlutabréfum í bankanum sem Sigurður fékk sem stjórnarlaun sbr. 16. gr. tvísköttunarsamnings milli Íslands og Bretlands eða sem almenn laun skv. 15. gr. tilvitnaðs samnings.
Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms þess efnis að kaupréttur Sigurðar hefði verið hluti af kjörum hans sem stjórnarmanns í Kaupþingi banka. Það var því niðurstaða dómsins að tekjur Sigurðar vegna kaupréttar hans á hlutabréfum í Kaupþingi hf. væru skattskyldar á Íslandi.
Ríkisskattstjóri hóf skoðun á skattskilum Sigurðar á árinu 2005 sem lauk með úrskurði þann 21. desember 2012 og síðar úrskurði yfirskattanefndar þann 18. júní 2014.
Sigurður áfrýjaði dómi héraðsdóms en hann taldi að kaupréttirnir sem hann nýtti sér hefðu verið skattskyldir í Bretlandi þar sem hann var búsettur og hann hefði þegar greitt það sem honum ber þar í landi. Íslensk skattayfirvöld féllust hins vegar ekki á það.
Sigurður krafðist ógildingar á úrskurði ríkisskattstjóra og úrskurði yfirskattanefndar, en með úrskurði nefndarinnar var staðfest sú niðurstaða ríkisskattstjóra að færa Sigurði til tekna sem stjórnarlaun 673.960.000 krónur tekjuárið 2006, 599.256.000 krónur tekjuárið 2007 og 328.048.000 krónur tekjuárið 2008, vegna kaupa hans á hlutabréfum í Kaupþingi, auk 25% álags.