60% gæsluvarðhaldsfanga erlendir ríkisborgarar

Öll fangelsi landsins eru nú full. Loka þurfti einu fangahúsi …
Öll fangelsi landsins eru nú full. Loka þurfti einu fangahúsi á Litla-Hrauni í sumar vegna endurbóta. mbl.is/ Ómar Óskarsson

30 fangar eru í dag í gæsluvarðhaldi í fangelsum landsins og eru 18 þeirra erlendir ríkisborgarar. Páll Winkel fangelsismálastjóri segir þetta vera óvenjulega stöðu. „Annars vegar eru óvenjumargir fangar í gæsluvarðhaldi yfirhöfuð og hins vegar er þetta býsna hátt hlutfall erlendra ríkisborgara í gæsluvarðhaldi,“ segir hann.

Fangelsismálastofnun vekur athygli á þessari stöðu á Facebook-síðu sinni og bendir til samanburðar á að á árabilinu 2008 til 2016 hafi erlendir gæsluvarðhaldsfangar að jafnaði verið á bilinu 3-9.

Spurður hvað valdi segir Páll margt koma til, en nefnir að dugnaður lögreglunnar á Suðurnesjum við að handtaka og fá menn úrskurðaða í gæsluvarðhald vegna þeirra fíkniefnabrota sem hafa komið upp á Keflavíkurflugvelli eigi vissulega hlut að máli. „Það er fljótt að skila sér í fangelsin til okkar,“ bætir hann við.

„Þannig að við erum með Hólmsheiðarfangelsið í jafnmikilli notkun og mögulegt er núna, bæði í einangrun og lausagæslu.“

Öll pláss í öllum fangelsum í fullri notkun

Páll segir slíkan fjölda gæsluvarðhaldsfanga óneitanlega hafi áhrif á hve hratt Fangelsismálastofnun getur unnið á boðunarlistum. Enda hafi verið gripið til þess ráðs að hætta að boða fólk inn í afplánun á meðan ástandið er svona. „Þetta sýnir kannski enn og aftur hve erfitt getur verið að reikna út plássfjölda í fangelsum. Ef allt fer af stað hjá lögreglunni þá fyllast plássin fljótt.“

Við þetta bætist að einu fangahúsi á Litla-Hrauni var lokað í gær. Húsið, sem hýsti 22 fanga, var komið á viðhaldstíma og mun sumarið vera notað til að gera það upp. „Þannig að það eru öll pláss í öllum fangelsum landsins í fullri notkun núna,“ segir Páll og játar því að boðunarlistar muni ekki styttast alveg á næstunni.

40 fangar eru nú vistaðir á Hólmsheiði, en fangelsið getur að sögn Páls hýst 56 fanga ef öll einangrunarrými eru notuð. „En það eru takmörk hvað er hægt að vista marga fanga með núverandi starfsmannafjölda og við erum komin að þolmörkum þar.“

Þarf stundum að kalla á túlka

Spurður hvað Fangelsismálayfirvöld muni gera ef fleiri verði úrskurðaðir í gæsluvarðhald á næstunni segir hann að að reynt verði að bregðast við því með einhverjum hætti. „Þá þurfum við jafnvel að fjölga uppi á Hólmsheiði, en það er erfitt,“ segir Páll. „Það eru þó einhverjir fangar að klára afplánun á næstu dögum, þannig að þetta er vonandi toppur sem við munum ráða við.“

Hátt hlutfall erlendra gæsluvarðhaldsfanga reyndi engu að síður mikið á starfsfólk fangelsanna. „Það reynir mikið á nærgætni og fagmennsku starfsfólks, því sumir eiga erfitt með að tjá sig á tungumáli sem starfsfólk skilur og þá þarf að kalla til túlka,“ segir Páll og kveður erlendu fangana vera frá helstu heimsálfum, þótt flestir séu Evrópubúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka