Það er mikilvægt að minna sig á það hversu margslungin og keðjuverkandi áhrif loftslagsbreytinga eru og muna eftir hversu mikilvægt skref það var að ná Parísarsamkomulaginu. Þetta segir Ingibjörg Svala Jónsdóttir, prófessor í líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, en hún hefur meðal annars rannsakað áhrif loftslagsbreytinga og líffræðilega fjölbreytni á heimskautasvæðum.
„Þetta eru náttúrulega ekki góðar fréttir, það eru náttúrulega fyrstu viðbrögðin. Þetta er mjög alvarlegt vegna stærðar Bandaríkjanna og hvað þau eru að losa mikið,“ segir Ingibjörg Svala um þá ákvörðun Donalds Trump að draga Bandaríkin út úr samkomulaginu. „Ef við erum ekki með svona stóran losunaraðila með í þessu samkomulagi þá erum við ekki að stemma stigu við þessum breytingum.“
Ingibjörg Svala sinnir mest rannsóknum á landi, bæði á Íslandi, á Svalbarða og víðar í heimskautalöndunum þar sem hlýnunin er hvað örust. Hún segir að þegar litið sé til landvistkerfa, sem eru hennar sérsvið, séu áhrifin sem hlýnunin hefur í för með sér margslungin og keðjuverkandi og því sé áríðandi er að stemma stigu við hlýnuninni sem fyrst og fremst eigi sér stað í gegnum losun koltvísýrings.
Í því samhengi nefnir hún tvenns konar keðjuverkandi áhrif sem hlýnun hefur á landi. „Það er í fyrsta lagi bráðnun jökla og hörfun jökla og bráðnun hafíss og minni snjóhula og styttri tími sem landið er hulið snjó. Allt þetta verður til þess að endurvarp inngeislunar sólar minnkar þannig að það verður meiri hlýnun í þessum vistkerfum, landvistkerfum, því það er minna endurvarp,“ útskýrir Ingibjörg Svala.
Hin keðjuverkandi áhrifin eru þau að sífreri bráðnar og þar af leiðandi losnar kolefni, sem örvar öndun í jarðvegi og veldur hlýnun. „Það er áhugavert að benda á það líka að heimskautalöndin hafa að geyma um það bil helming alls jarðvegskolefnis sem bundið er í jarðveginn á heimsmælikvarða og þá náttúrulega losnar um þetta þegar öndunin eykst,“ segir Ingibjörg Svala.
Annars vegar er það sem sagt öndun, bruni kolefnis og losun þess í formi koltvísýrings út í andrúmsloftið og hins vegar vegna hlýnunarinnar sjálfrar og vegna þiðnunar á sífrerunum sem annars varðveita kolefni.
„Þannig að þetta er svo margslungið og það er bara rétt að minna sig á þetta allt saman til þess að muna eftir hversu mikilvægt skref þetta var að ná þessu samkomulagi, Parísarsamkomulaginu,“ segir Ingibjörg Svala en þetta séu bara nokkur atriði sem hún nefnir varðandi norðurslóðirnar, fleira komi til. „Þetta magnar upp, það eru jákvæð mögnunaráhrif eins og sagt er; hlýnun orsakar eiginlega meiri hlýnun.“
En er eitthvað sem hinn akademíski heimur og vísindin geta gert til að bregðast við?
„Þetta er góð spurning, ég held að við þurfum að gera það og það hefur oft verið rætt. Við höfum oft verið gagnrýnd fyrir að láta ekki í okkur heyra inn í þjóðfélagsumræðuna, við höfum nú verið að reyna það,“ útskýrir Ingibjörg Svala.
Sjálf er Ingibjörg formaður Vistfræðifélagsins og nefnir hún sem dæmi að það sé eitt af þeirra markmiðum að reyna að beita félaginu til þess að koma með sína vísindalegu sýn inn í þjóðfélagsumræðuna.
Hún segir vísindamenn vissulega hafa ýmsar leiðir, til að mynda að álykta um mál og skrifa í fjölmiðla en oft hafi reynst erfitt að koma skilaboðunum í gegn og fá umfjöllun í fjölmiðlum. „Svo höfum við verið að senda ályktanir á stjórnvöld, vonandi hefur það einhver áhrif en það er voðalega erfitt að mæla það af því að við fáum aldrei nein viðbrögð frá þeim,“ útskýrir Ingibjörg Svala.
„Þannig að maður reynir […] Við erum náttúrlega endalaust að skrifa og miðla þessum upplýsingum okkar en þær hafna oft í svona óaðgengilegu formi í formi vísindagreina sem tiltölulega þröngur hópur les,“ bætir hún við. „En auðvitað getum við gert betur, við þurfum að gera betur.“