„Þetta er náttúrulega mikið áhyggjuefni að valdamesti maður heims skuli ákveða að draga Bandaríkin út úr þessu samkomulagi,“ segir Ingrid Kuhlman, fulltrúi „París 1,5“, baráttuhóps um að Ísland standi við gefin loforð um að stöðva hlýnun jarðar. Hún segir jákvætt hvernig önnur ríki hafa brugðist við og að Íslendingar geti gert enn betur.
Bandaríkjamenn eru í öðru sæti þegar kemur að losun gróðurhúsalofttegunda og því er ákvörðun Bandaríkjaforseta vissulega mikið áhyggjuefni að sögn Ingridar en á sama tíma telur hún að hægt sé að gleðjast yfir því að svo virðist sem bæði Kína og ESB séu nú að þétta raðirnar. Þá hafi líka komið sterk viðbrögð frá ríkjum innan Bandaríkjanna, til að mynda frá Kaliforníu sem sé eitt stærsta hagkerfi í heimi og einnig ríkjum á norðausturströnd Bandaríkjanna.
„Þeir ætla að standa við Parísarsamkomulagið óháð ákvörðun Trumps þannig að það að vissu leyti eru góð tíðindi og ég held líka að hann sé í raun að afhenda Kína bara ýmis tækifæri,“ segir Ingrid og bendir á að einna stærstu tækifærin í dag liggi í grænni orku og að öll sú þróun sem sé að eiga sér stað núna kunni ef til vill að færast til Kína eða til Evrópuríkjanna. „Þannig að ég held í raun að það sé enginn ávinningur í þessu fyrir Bandaríkin, hann sé í raun og veru bara að skjóta sig í fótinn með þessari ákvörðun,“ segir Ingrid.
Ljósi punkturinn við þessa ákvörðun Bandaríkjaforseta er að mati Ingridar sá að viðbrögðin hafa verið hörð og svo virðist sem önnur ríki þétti raðirnar í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. „Það tala allir á öðrum nótum, bæði Kína og Evrópusambandið auk stórfyrirtækja sem sendu yfirlýsingu frá sér í gær um að Bandaríkin þyrftu að vera áfram. Ég held að þetta muni bara þýða að þessi störf muni bara fara annað og ég held að Bandaríkin bara dragist aftur úr,“ útskýrir Ingrid.
Þá bendir hún á að hér sé ákveðin endurtekning að eiga sér stað, Clinton hafi á sínum tíma skrifaði undir Kyoto-bókunina en þegar Bush komst til valda hafi hann ákveðið að draga Bandaríkin út úr ferlinu. „Og það sama er að gerast aftur núna,“ segir Ingrid.
„En þetta eru auðvitað ekki góð tíðindi. Kína er í fyrsta sæti, Bandaríkin í öðru sæti og þetta gæti auðvitað veikt samkomulagið en miðað við viðbrögðin sem hafa komið bind ég vonir við að hinir muni bara þétta raðirnar og við munum bara gera enn betur.“
„Við náttúrulega erum hér á Íslandi kannski heldur ekki að standa okkur mjög vel í þessum málum,“ segir Ingrid, spurð um framlag Íslands í þessum efnum. Nú þurfi Íslendingar að vera enn þá staðráðnari í að setja sér markmið, 195 ríki hafi staðfest Parísarsamkomulagið, að frátöldum Bandaríkjunum frá og með gærdeginum, og 145 ríki hafi þegar skilað sínum markmiðum en Ísland sé ekki þeirra á meðal.
„Það var náttúrulega þessi fundur þar sem þessir sex ráðherrar héldu blaðamannafund um daginn og voru í raun bara að tilkynna að þeir ætluðu að fara í gerð áætlunar og hún á að vera tilbúin í lok ársins þannig að við erum svolítið að draga lappirnar líka hér heima,“ segir Ingrid.
Aðspurð segir hún þetta gefa tilefni til þess að íslensk stjórnvöld bregðist hraðar við og Íslendingar þurfi að spýta í lófana. „Við þurfum að fara að sýna hvað við ætlum að gera,“ segir Ingrid. „Miðað við viðbrögðin sem maður sér, eins og frá til dæmis umhverfisráðherra, og þá í raun mun þetta kannski bara styrkja okkur. Þetta gæti líka þýtt að við tökum okkur á og gerum bara meira en ætlast er til af okkur. Þannig að við skulum bara vera bjartsýn,“ segir Ingrid að lokum