„Ég var alltaf á móti ýmsum þeim leiðum sem fólki þótti sjálfsagt að nota í þá daga og talaði til að mynda mikið á móti því að senda þá drengi sem áttu erfitt með nám eitthvert langt í burtu. Það var alltaf verið að senda þá út og suður,“ segir Eyjólfur Magnússon Scheving kennari sem hefur alla ævi boðið þeim sem minna mega sín hjálp; ungum sem öldnum og það inni á eigin heimili.
Viðtal við Eyjólf birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem kemur út um helgina en segja má að Eyjólfur sé ein af hvunndagshetjum samfélagsins. Sem ungur kennari tók hann „vandræðadrengina“, sem skólarnir ráku og enginn vildi sökum einhvers konar vandræða, heim til sín í kennslu eftir að venjulegum vinnudegi lauk. Síðar á ævinni stofnaði hann mannræktarsamtökin Höndina, sem hafa stigið inn í erfiðar aðstæður fólks, einstaklinga sem yfirleitt eiga fáa að, og leyst úr erfiðum verkefnum.
„Ég var mikið á móti Breiðavík og satt best að segja hrekk ég alltaf í kút þegar talað er um þessi agavandmál í skólum. Ég tók þessa drengi bara heim til mín þar sem við bjuggum í Reynigrund í Kópavogi, eftir skóla og heilan kennsludag. Ég vildi það frekar en þeir lentu einhvers staðar og einhvers staðar, úti á landi eða í Efstasundi, hafði vonda tilfinningu fyrir því. Enda kom síðar á daginn að þar voru unglingarnir bundnir með límbandi. Þessir strákar sem ég fékk til mín eru meira og minna allir vinir mínir í dag,“ segir Eyjólfur, sem hefur einnig aðstoðað suma þeirra eftir að þeir urðu fullorðnir.
Það var fræðsluskrifstofa Reykjanesumdæmis sem bað Eyjólf um að taka börn heim sem þurftu aðstoð og árið 1986 fór hann fyrst að fá börn heim til sín í kennslu. Sum barnanna enduðu á að vera hjá honum í mörg ár. Vandamál þeirra voru margs konar, sneru að hegðun, samskiptum vímuefnaneyslu, afbrotum og námserfiðleikum. Þessum börnum hafði verið vísað úr skóla og sum biðu þess að komast annað. Eyjólfur og aðferð hans við að ná til barnanna þótti einstök, þar sem skólunum hafði gengið það illa. Umsagnir foreldra um Eyjólf og kennslu hans á þessum tíma segja líka miklu sögu, en þar kemur fram að til Eyjólfs hafi drengirnir altlaf getað leitað, hann hafi unnið traust þeirra og gefið þeim trú á sjálfa sig þegar öll sund virtust lokuð.
„Það verður samt að viðurkennast að maður var ekkert altlaf vinsæll hjá kerfinu þegar maður var að taka þessa unglingahjálp. En skólarnir vildu þá ekki og hvað átti að gera við þá? Það er ekki hægt að snúa baki við börnum af því að þau eiga í erfiðleikum. En vissulega gat þetta líka reynt á manns eigin fjölskyldu, að þarna var alltaf fullt af fólki, á heimili sem ég bjó á með konu minni og þremur börnum. Þetta gat komið niður á fjölskyldunni þótt maður hafi ekki skilið það sjálfur,“ segir Eyjólfur.
Magnús Scheving, Latabæjarfrumkvöðull og athafamaður, er eitt þriggja barna Eyjólfs af fyrra hjónabandi en hin eru Ragna Sólveig listakona og Hjörtur Már, tölvunarfræðingur. Einnig á Eyjólfur tvö stjúpbörn, Hallbjörn Eðvarð kokk og Fjólu sem er sérfræðingur hjá VR. Eiginkona Eyjólfs í dag er Helga Hallbjörnsdóttir. Þau kynntist í gegnum mannúðar- og mannræktarsamtök sem Eyjólfur stofnaði árið 2005 og nefnist Höndin.
Samtökin urðu fyrst of fremst vettvangur fólks til sjálfsstyrkingar og samhjálpar þar sem fólk fetar fyrstu skref sín til nýs lífs eftir ýmis áföll, þar sem það er bæði aðstoðað við að byggja upp félagslega færni og atvinnuþátttöku. Verkefnin á þessum 12 árum hafi verið margskonar og eiginlega engin tvö eins. Sjálfstyrkingarfundir í Áskirkju og gönguhópar hafa verið fastur liður og boðið er upp á heimsóknir til eldra fólks og þeirra sem eru einmana. Þessar heimsóknir hafa talið nokkur hundruð á ári, en á heimili þeirra Eyjólfs og Helgu hafa borist símtöl frá skjólstæðingum Handarinnar, mörg á dag. Helga er formaður Handarinnar í dag og hefur séð um fyrirspurnir og svör, sem eru um 2.000 á ári. Þau hafa tekið á móti skjólstæðingum sínum á heimili síu, í Áskirkju og á heimilum fólks sem treystir sér ekki til að fara út í bæ og heimsótt það á sjúkrahús. Oft snýr hjálpin að flóknum lögréttindamálum, húsnæði og atvinnu hafa starfsmenn Handarinnar stigið inn í ótrúlega flóknar og erfiðar aðstæður en þessi þjónusta hefur alla tíð verið ókeypis. Höndin hefur hlotið ýmsar viðurkenningar svo sem Samfélagsverðlaun Fréttablaðsins.
„Yfir það heila höfum verið mikið verið að berjast fyrir fólk sem á fáa sem enga að. Ég hef verið í jaðraför skjólstæðings þar sem aðeins fjórir voru viðstaddir. Þess vegna hafa verkefnin oft verið mjög persónuleg,“ segir Eyjólfur en segir einnig að þessa dagana sé hann eins og stunginn í hjartastað.
„Við fengum eina milljón í styrk frá ríkinu, sem dugar ekki til undirstöðukostnaðar til að halda Hendinni gangandi. Þetta er mikill munur frá því sem hefur áður verið, þar sem við höfum til dæmis fengið styrk upp á 3,5 milljónir sem hefur dugað til að halda þessu gangandi. Þetta eru afar flókin verkefni og ólík þar sem við erum að sinna verkefnum sem margir veigra sér við að stíga inn í,“ segir Eyjólfur en nánar má lesa um starf Handarinnar og merkan kennsluferil Eyjólfs í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.