Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi hæstaréttardómari, var áminntur af Lögmannafélagi Íslands fyrir að hafa brotið gegn siðareglum lögmanna í tölvupóstsamskiptum við dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur í desember.
Málið snerist um að Jón Steinar óskaði eftir flýtimeðferð á máli fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Hann lagði fyrir Ingimund Einarsson dómstjóra stefnuna, auk lista yfir skjöl málsins og bað dómstjórann um að hafa samband við sig ef hann þyrfti frekari gögn til að taka afstöðu til flýtimeðferðarinnar. Beiðninni var svo hafnað á þeim grundvelli að engin skjöl hefðu fylgt.
Eftir það áttu sér stað orðaskipti milli þeirra tveggja sem drógu dilk á eftir sér. Jón Steinar sendi Ingimundi tölvupóst þar sem hann lýsti yfir óánægju með vinnubrögðin.
„Sæll dómstjóri.
Efni þessa bréfs er furðulegt og reyndar eins konar högg undir beltisstað. Ég kom að máli við þig áður en ég sendi erindið. Ég sagði þér að gögn málsins væru mikil að vöxtum og gerði ráð fyrir að senda þau með. Þú taldir það óþarfa og komum við okkur saman um að þú fengir skjalaskrána og myndir svo kalla eftir gögnum ef þú teldir þörf á. Það er þá líklega best núna að senda þér nýja beiðni og láta öll gögnin fylgja.
Ég man ekki eftir svona framgöngu embættismanns eða dómara fyrr á starfsæfi minni sem spannar um hálfa öld.
Vonandi sefur þú vel næstu nótt.
Kveðja“
Ingimundur svaraði og sagðist leggja annan skilning í atburðarrásina. Í samtali þeirra hefði hann nefnt að nauðsynlegt væri að fá ákvörðun stjórnvalds ef óskað væri eftir flýtimeðferð.
„Að öðru leyti hirði ég ekki um ávirðingar þínar, en þykir leitt að þú hafir gleymt þessu samtali."
Fjórum dögum síðar svaraði Jón Steinar og sagðist finna þörf á að ljúka þessum óskemmtilegu samskiptum við mann sem hann hefði jafnan talið vera þokkalega heiðarlegan og með sæmilegt jarðsamband. Jafnvel þó Ingimundur hefði haft rétt fyrir sér um efni samtalsins, sagði Jón Steinar, hefðu allir venjulegir menn gert viðvart um að gögn vanti.
„En ekki þú hinn mikli dómstjóri! Svo sendir þú mér í þokkabót svar sem er fullt af hroka og yfirlæti. Ef satt skal segja kenni ég í brjósti um þig. Menn sem koma svona fram eru að mínum dómi varla í góðu jafnvægi.
Jón Steinar sendi aftur beiðni um flýtimeðferð og viðeigandi gögn með. Beiðninni var hafnað nokkrum dögum síðar og svaraði Jón Steinar með eftirfarandi hætti:
„Ég var að lesa synjun þína á beiðni um flýtimeðferð og rökin fyrir henni.
Leyf mér bara að segja við þig Þú ættir að láta af hroka og yfirlæti sem svo mjög hefur einkennt afstöðu þína í þessu máli. Það fer miklu betur á því að sleppa slíku þó að menn kunni að líta stórt á sig. Þeim líður að jafnaði betur þannig."
Úrskurðarnefnd lögmanna komst að því að ekki gæti talist eðlilegt að lögmenn settu sig í beint samband við dómendur til að fjalla um óánægju sína með úrlausnir þeirra eftir að þær koma fram með þeim hætti sem gert var. Einstök ummæli kærða í þessum samskiptum séu fjarri því sem er viðeigandi í samskiptum lögmanna við dómendur og brot hans sé alvarlegt.