Offita er eitt stærsta heilsufarsvandamál Vesturlanda og sífellt versnar ástandið. Íslendingar eru of þungir og offitusjúklingum fer fjölgandi. Talað er um að vera í yfirþyngd þegar BMI-stuðull er á milli 25 og 30 en allt yfir 30 telst offita, en fólk með 18,5 til 25 er sagt vera í kjörþyngd. Talið er að rúmlega helmingur Íslendinga sé í yfirþyngd og samkvæmt alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) eru 22% Íslendinga í offituflokki samkvæmt tölum frá árinu 2014. Líklega hafa þessar tölur hækkað enn frekar á síðustu árum.
Læknar eru almennt sammála að megrun virki ekki. Ævilanga lífstílsbreytingu þurfi til og þrír læknar sem hér er rætt við eru sammála um að oft sé nauðsynlegt að fara í aðgerð til að ná tökum á þyngdinni, og halda henni af. Skiptar skoðanir eru á því hvaða aðgerðir eru bestar en aðgerð er oft síðasta úrræði þeirra sem prófað hafa allt annað.
Aðalsteinn Arnarson skurðlæknir er öllum hnútum kunnugur hvað varðar offituaðgerðir. Hann telur magabandið ekki hentugan kost en segir að magahjáveita, magaermi og magaslanga hafi hjálpað mörgum. Hann telur að sjúklingar sem eru með BMI stuðul yfir 40 eigi að fá aðgerðir niðurgreiddar.
Aðalsteinn gerir tvenns konar aðgerðir, hjáveitu og magaermi, og segir þær báðar gefa góðan árangur. Einnig kjósa sumir magaslöngu, svokallaðan krana, og þarf einungis magaspeglun til að koma henni fyrir. „Í hjáveitunni er ekkert fjarlægt heldur einungis tengt framhjá. Í erminni er hluti magans fjarlægður en engar aðrar breytingar gerðar á líkamanum. Sjúklingum finnst þessi staðreynd aðlaðandi og þeim finnst þetta minni aðgerð,“ útskýrir hann og segir báðar aðgerðirnar vera öruggar.
Af hverju er svona erfitt að léttast?
„Enn og aftur erum við að tala um efnaskipti líkamans, þetta samspil á milli hormóna frá meltingarveginum og heilastöðva sem stýra því hvernig við umgöngumst mat, t.d. hvenær við erum svöng eða södd. Þetta eru gríðarlega öflug boðkerfi. Ef við erum svöng er erfitt að segja: ég ætla ekki að borða núna, ég ætla ekki að borða meira. Þú borðar gjarnan þangað til þú finnur að þú sért að verða saddur. Annað vandamál er að ef við þyngjumst notar heilinn nýju þyngdina sem nýtt viðmið. Því miður stillir hann ekki núllpunktinn niður aftur þótt við grennumst. Hann lítur svo á að við líðum næringarskort og gerir allt til að auka þyngdina aftur,“ segir Aðalsteinn. Hann telur afar erfitt fyrir fólk í yfirþyngd að ná kjörþyngd upp á eigin spýtur.
„Erfitt er að finna góðar rannsóknir sem sýna viðvarandi árangur á neinum aðferðum, eins og megrunum. Það er ástæða fyrir því að til eru 20 þúsund megrunarkúrar með nafni,“ segir Aðalsteinn.
Aðalsteinn segir fáar meðferðir gefa offitusjúklingum jafn góðan langtímaárangur og aðgerð. En aðgerð kostar sitt og íslenska heilbrigðiskerfið tekur ekki þátt í þeim kostnaði hjá flestum sjúklingum.
„Mín skoðun er sú að sjá megi þetta sem tvo hópa; þann sem í eru einstaklingar í ofþyngd, með BMI yfir 40, þar sem við vitum að aðgerð gefur bestan árangur, og hinn hópinn sem eru börn þar sem safna á saman fagaðilum til að fyrirbyggja ofþyngd til framtíðar. Einstaklingar í fyrrnefnda hópnum ættu að fá möguleika á aðgerð á kostnað heilbrigðiskerfisins. Ef fylgisjúkdómar offitu eins og kæfisvefn eða sykursýki eru auk þess til staðar á að veita þessu fólki bestu fáanlegu meðferð. Þú segir ekki sykursýkisjúklingi, eða sjúklingi með aðra illviðráðanlega fylgisjúkdóma offitu, bara að grenna sig. Það er gríðarleg krafa gerð á þennan sjúklingahóp sem ekki er gerð á marga aðra hópa sjúklinga. Þessi hópur er oft skilinn eftir og ekki boðin besta meðferð. Fyrir hönd þessara einstaklinga finnst mér það gríðarlega ósanngjarnt,“ segir Aðalsteinn, en aðgerðirnar kosta á bilinu eina til eina og hálfa milljón. Aðalsteinn segir suma fara til útlanda, þar sem aðgerðirnar fáist ódýrari. Á móti fái fólk enga eftirfylgni, sem sé mjög mikilvæg, sérstaklega ef upp koma vandamál.
Nágrannalönd okkar standa sig mun betur á þessu sviði, að sögn Aðalsteins. „Nýlega var haldin samnorræn ráðstefna hér á landi þar sem farið var yfir stöðu þessara mála á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjum. Ísland kemur áberandi verst út í fjölda aðgerða sem framkvæmdar eru á vegum opinbera kerfisins. Ef við berum okkur saman við Svíþjóð og Noreg ættum við að gera tífalt meira. Það ættu að vera gerðar 250-300 aðgerðir á ári, og þá er ekki verið að tala um uppsafnaðan fjölda. Síðastliðin fimm ár hafa að meðaltali verið gerðar um 25 aðgerðir á Landspítalanum. Rannsóknir sýna að þessar aðgerðir eru öruggar og þjóðhagslega mjög hagkvæmar og aðgerðin sem slík greiðir sig upp á tveimur árum vegna lægri kostnaðar vegna fylgisjúkdóma offitunnar, fjarveru frá vinnu og svo framvegis. Af hverju er sjúklingum ekki boðið upp á þetta í meiri mæli?“
Magabandið er kostur sem Aðalsteinn kýs að nota ekki og hefur hann ákveðnar skoðanir á því.
„Bandið var mikið sett í fólk á áttunda og níunda áratugnum og í Svíþjóð er enginn sem framkvæmir þessa aðgerð lengur, hún er algjörlega dottin út. Ástæðan er sú að magabandið skilar ekki nógu góðum árangri til lengri tíma. Árangurinn getur verið ágætur fyrstu 3-5 árin en svo er því miður allt of hátt hlutfall sjúklinga sem fær annaðhvort óþægindi eða nær ekki nógu góðum árangri. Rannsóknir hafa sýnt að stórt hlutfall af þessum sjúklingum lætur fjarlægja bandið aftur eða lætur tæma bandið og hefur því ekkert gagn af því. Sem dæmi er ég að vinna á Landspítalanum og þar erum við að fá töluvert af beiðnum um að láta fjarlægja bönd,“ segir Aðalsteinn. „Þetta er sú hlið sem ég sé. Það getur vel verið að hægt sé að ná góðum árangri með þéttara eftirliti og ég er ekkert að draga það í efa. En það er mikilvægt að vita að í samanburðarlöndum eins og í Bandaríkjunum og í Evrópu, eru vinsældir magabandsins að minnka hratt. Mín skoðun er sú að það er ábyrgðarhluti að tala allt of fallega um bandið, maður þarf að upplýsa um ókosti þess líka.“
Auðun Sigurðsson bjó í Bretlandi í áratugi og framkvæmdi þar þúsundir offituaðgerða, bæði magaermi og magabandsaðgerðir. Nú er hann fluttur heim og hefur nóg að gera að setja magabönd í Íslendinga sem hafa tekið þeim fagnandi.
„Magabönd og magaermar eru 99% af því sem við gerum hér,“ segir Auðun og útskýrir að aðgerðirnar tvær henti mismunandi hópum. „Magaböndin eru fyrst og fremst fyrir fólk með þyngdarstuðulinn 30-45 (BMI). Auðvitað er hægt setja magaband í þá sem þyngri eru en það er svolítið erfiðara að glíma við þegar þyngdarstuðullinn er kominn hærra, þá þarf aðeins sterkari aðgerð til þess að ná góðum árangri og þess vegna erum við líka með magaermina.
„Við skulum átta okkur á því að á Íslandi eru 70.000 fullorðnir með þyngdarstuðulinn yfir þrjátíu og mælast með offitu. Það er meira en helmingur Íslendinga í yfirþyngd, með þyngdarstuðul yfir 25 og 28% í offituflokki en í Bandaríkjunum eru það yfir 30%. Og það er bara að versna. Það er áætlað að það séu um 7.000 til 12.500 manns hérlendis með sjúklega offitu og væru kandídatar í aðgerð,“ segir Auðun.
„Hér á landi þurfa sjúklingar sjálfir að bera kostnað af aðgerðunum sem kosta á bilinu ein til ein og hálf milljón. „Eins og annars staðar í heiminum erum við bara að skera 1% af því fólki sem við gætum skorið, því miður. Þó að þetta sé eina áhrifaríka aðferðin og ekki bara það, heldur er hún mjög arðbær þjóðfélaginu.“
Auðun segir magabandsaðgerðina gefa góða raun. Hann gerði rannsókn á 729 Íslendingum með magaband og sýndu niðurstöðurnar að á fyrstu 2-3 árunum var fólk búið að missa að meðaltali 63% af yfirvigtinni. „Hliðarverkanir eru mjög sjaldgæfar og árangurinn er mjög góður. Það gengur vel hjá okkur á Íslandi og við kunnum vel til verka. Það byggir á því að ég er búinn að gera 6.000 magabandsaðgerðir á fimmtán árum í Bretlandi áður en ég kom hingað. Á þeirri reynslu byggir meðferðin núna og hér koma sjúklingar líka í eftirmeðferðina. Ef þú kemur ekki í hana þá er enginn árangur,“ segir Auðun og útskýrir að þótt að rannsóknir erlendis sýni misgóðan árangur sé það ekki endilega raunin hér á landi. „Vandinn er þríþættur. Í fyrsta lagi þarf að kunna að gera aðgerðina. Í öðru lagi þarf fólk að gera það sem þarf í eftirmeðferðinni. Og svo í þriðja lagi, þá verða sjúklingar að koma í eftirmeðferðina. Ef allir þessir þrír þættir eru ekki til staðar er ekki góður árangur,“ segir Auðun.
Af hverju verða sumir offitusjúklingar og aðrir ekki?
„Þá má skipta þessu í tvo hópa. Það eru til börn sem eru strax í æsku í miklum vandamálum með offitu. Þá eru það greinilega gen sem spila inn í. Svo eru það þeir sem bæta á sig á fullorðinsárunum. Það er þannig að þyngdarstöðin sem stýrir þyngdinni í líkamanum, hún endurstillir sig ef þú bætir á þig. Ef þú keyrir niður þyngdina með viljastyrknum, þá rýkur hún upp aftur síðar meir,“ segir hann og útskýrir að offita hefur ekkert með skort á viljastyrk að gera.
„Það eru lífeðlisfræðilegar ástæður fyrir öllu þessu, fólk skilur oft ekki af hverju of feitt fólk borðar bara ekki minna og hreyfir sig meira. Þetta er voðalega einfalt! Gerðu það bara, og þetta er fólk að heyra alla sína ævi. Það hefur engin áhrif. Að segja við offitusjúkling að prufa að borða minna er eins og að segja við einhvern: prufa þú að hætta að anda í tíu mínútur. Hvað gerist? Eftir eina mínútu springurðu og byrjar að anda. Það er nákvæmlega sama með offitusjúkdóminn. Það er svo sterkt líkamlegt ferli sem fer í gang þegar þau byrja að borða að þau geta ekki stoppað það. Þau geta það ekki. Það er búið að mæla þetta endalaust. Það eru alltaf sömu niðurstöðurnar, það virkar ekkert nema að fara í aðgerð. Það er eina leiðin fyrir sjúklega offitu fyrir langtímaárangur. Því miður, það er enginn árangur af hinu. Annars væri þetta ekkert vandamál.“
Erla Gerður Sveinsdóttir, læknir og lýðheilsufræðingur, sérhæfir sig í meðferð fólks í yfirþyngd og með offitu. Hún segir lífsstílsbreytingu alltaf verða að fylgja með, hvort sem einstaklingur velur aðgerð eða ekki. Erla er hlynnt magahjáveitu og magaermi en mælir ekki með magabandi.
„Það er mjög mismunandi hvað hentar, en grunnurinn er að ég vinn alltaf með lífsstílinn. Kúr og lífsstílsbreyting er alveg tvennt ólíkt. Kúrar virka ekki, það er alveg ljóst. En það þarf alltaf að gera lífsstílsbreytingu, hvort sem þú ferð í aðgerð eða ekki. Það þarf að vinna með mataræði, hreyfingu, svefn, andlega líðan og aðstæður í daglegu lífi. Í sumum tilvikum er æskilegt að nota aðgerð sem hjálpartæki. En það er aldrei lausn eitt og sér. En hún getur hjálpað,“ segir Erla sem hjálpar bæði fólki sem er á leið í aðgerð og því sem hefur þegar farið. Einnig vinnur hún mikið með fólki sem kýs eingöngu að fá hjálp við að breyta um lífsstíl.
Oft hefur skapast umræða um að ekki eigi að stíga á vigtir og láta töluna þar stjórna lífinu. Erla segir sjálfsagt að nota vigt sem tæki til hjálpar. „Við sem heilbrigðisstarfsfólk eigum að ganga á undan með góðu fordæmi og útrýma þessum fordómum í garð vigtar. Það að fylgjast með þyngdinni er jafn eðlilegt og að fylgjast með blóðþrýstingi. Hættum að tengja þetta svona mikið við útlit og persónugerð, eins og umræða í fjölmiðlum snýst oft um,“ segir Erla og bætir við að offitumeðferð snúist ekki um það að léttast, heldur skapa jafnvægi í líkamanum.
Erla segir að aðgerð, ásamt lífsstílsbreytingu, hjálpi mörgum en hún hefur ákveðnar skoðanir á hvaða aðgerðir hún mæli með. „Magahjáveitan er gullstandardinn. Hún er besta aðgerðin hvað varðar langtímaárangur. Hún er hins vegar mesta inngripið. Í sumum tilvikum er betra að fara í ermina frekar. Það fer eftir líkamsástandi og heilsufari sjúklingsins. En ég vel aldrei magaband. Það er barn síns tíma og ef við veljum aðgerð á annað borð, þá veljum við annaðhvort hjáveitu eða ermina,“ segir Erla og bætir við að hún hafi ekki trú á magaslöngunni, eða svokölluðum krana. „Alls ekki, hann hvorki hjálpar þér með lífsstílinn né efnaskiptin. Þetta er til að tappa af hitaeiningum og er því í andstöðu við það sem við erum að reyna að gera. Magabandið er í raun meira í ætt við fegrunaraðgerð og fólk ræður auðvitað hvað það gerir við líkama sinn. En sú aðgerð breytir ekki efnaskiptum heldur minnkar bara magamálið og það þarf að hafa áhrif á efnaskipti líkamans. Ég get ekki mælt með þessari leið,“ segir hún. „Ég fæ mikið til mín sjúklinga þar sem magabandið hefur ekki virkað sem skyldi. Ég sé auðvitað ekki þá sem gengur vel hjá, sem eru alltaf einhverjir.“
Ítarlegri viðtöl er að finna í umfjöllun Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins um skurðaðgerðir sem gerðar eru hér á landi vegna offitu.