Kostnaður lækkar með breyttum lögum

Breytingin nær meðal annars til útleigu í gegnum Airbnb í …
Breytingin nær meðal annars til útleigu í gegnum Airbnb í þeim tilfellum sem um svokallaða heimagistingu er að ræða. Lögin taka gildi 1. júlí. AFP

Með breytingum á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, sem samþykkt voru á Alþingi í síðustu viku, mun ekki lengur þurfa sérstakt starfsleyfi fyrir svokallaðri heimagistingu. Breytingin, sem tekur gildi þann 1. júlí, hefur í för með sér töluvert mikla lækkun kostnaðar fyrir þá leigjendur heimagistingar sem breytingin nær til. Getur það meðal annars átt við um útleigu í gegnum Airbnb en á þó ekki við í öllum tilfellum.

Breytingin lýtur að því sem skilgreint er sem heimagisting en þar er aðeins um að ræða gistingu „á lögheimili einstaklings eða einni annarri fasteign í hans eigu sem hann hefur persónuleg not af,“ að því er fram kemur í svari umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, við fyrirspurn mbl.is.

Eftir að lögin taka gildi mun því ekki þurfa sérstakt starfsleyfi líkt og fyrr segir, en kostnaður við slíkt leyfi er samkvæmt gjaldskrá Reykjavíkurborgar 34.500 krónur. Þá hefur jafnframt þurft að greiða svokallað eftirlitsgjald, aðrar 34.500 krónur, sem jafnframt verður óþarft með gildistöku laganna. Áfram ber eigendum húsnæðis, sem hyggjast leigja út fasteign í heimagistingu, þó að greiða skráningargjald vegna heimagistingar sem samtals nemur 8.560 krónum.

Liggur því ljóst fyrir að breytingin hefur í för með sér sparnað um sem þeirri upphæð nemur fyrir þá sem hyggjast leigja út heimili sín í heimagistingu.

Á ekki við í öllum tilfellum

„Þetta getur átt við um Airbnb en það er auðvitað fullt af Airbnb-gistingu þar að er kannski einhver sem á margar íbúðir og er bara að leigja þær út í Airbnb,“ segir Bergþóra Njála Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Hún segir mikilvægt að halda því til haga að breytingin á ekki við í slíkum tilfellum, heldur aðeins þegar um er að ræða gistingu á lögheimili einstaklings eða einni annarri fasteign í hans eigu sem að viðkomandi hefur persónulega not af. „Þarna er í raun og veru bara verið að hugsa um það til dæmis ef að fólk á sumarbústað og er að leigja það stöku sinnum út eða ef að það leigir bara sína eigin íbúð út,“ segir Bergþóra.

„Það eru náttúrlega heilbrigðisnefndirnar sem að gefa út þessi starfsleyfi og núna þarf ekki lengur starfsleyfi fyrir þessa heimagistingu,“ útskýrir Bergþóra. „Þú þarft náttúrlega ekki að borga fyrir starfsleyfi ef að þú þarft ekki starfsleyfi.“

Breytingin hefur í för með sér töluvert mikla kostnaðarlækkun fyrir …
Breytingin hefur í för með sér töluvert mikla kostnaðarlækkun fyrir þá leigjendur heimagistingar sem breytingin nær til. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert